154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

réttur eftirlifandi foreldris til sorgarleyfis.

333. mál
[17:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V):

Frú forseti. Mig langar til að eiga samtal við hæstv. ráðherra hér á Alþingi um sorgarleyfi vegna þess að ég trúi því að sorgarleyfi sé þýðingarmikill réttur fyrir fjölskyldur í kjölfar þess að barn missir foreldri sitt og ég trúi því að hér sé mál sem Alþingi á að geta sameinast um og samþykkt. Þess vegna lagði ég fram frumvarp í þá veruna.

Ár hvert verða um hundrað börn á Íslandi fyrir því þunga áfalli að missa foreldri sitt. Á árunum 2009–2018 misstu 1.007 börn á Íslandi foreldri. Það eru tölur frá Hagstofunni sem þetta sýna. Á þessu sama árabili létust 649 foreldrar barna og í mörgum tilvikum frá fleiri en einu barni. Um 40% þessara foreldra létust úr krabbameinum. Öll þekkjum við til þessara barna og þessara fjölskyldna og öll held ég að við vitum og skiljum hversu þungt áfall það er fyrir hvert og eitt barn sem upplifir það að missa foreldri og að eftir stendur annað foreldri eða annar náin aðstandandi í erfiðri og viðkvæmri stöðu. Ég held að það þurfi í sjálfu sér ekki að orðlengja frekar um það.

Með einfaldri lagabreytingu í þessa veruna er hægt að styðja við þessar fjölskyldur á viðkvæmum tíma í lífi þeirra og gefa þeim rými. Þegar við erum að ræða um þetta skiptir auðvitað máli að hér yrði um lagaheimild að ræða, heimild til að taka sorgarleyfi, sem einhverjir í þessum hópi myndu notfæra sér en ekki allir. Markmiðið væri þá að gefa sambúðarmaka eða öðrum nánum aðstandenda barnsins heimild til að taka sér leyfi frá störfum á launum í sex mánuði, sem væri svo hægt að dreifa yfir lengra tímabil, og að greidd verði 80% launa en þó með tilgreindu þaki um hámarksgreiðslu.

Virðulegi forseti. Við eigum að viðurkenna áhrif missis og áhrif sorgar á fjölskyldur og á þá einstaklinga sem standa nærri í kjölfar þess að barn missir foreldri sitt. Hvað kostnaðinn varðar þá má kannski nefna hér atriði, sérstaklega núna á verðbólgutímum, að það er annars vegar um að ræða tímabundna heimild fyrir fólk í þessari stöðu og síðan er það sú staðreynd að þessi hópur er blessunarlega ekki stór. En það blasir við hversu þungbært þetta er fyrir þessar fjölskyldur, fyrir þessa foreldra og aðstandendur sem eftir standa. Í ofanálag kemur stundum tekjumissir heimilis og fjárhagsáhyggjur því að þegar um langvarandi veikindi, eins og t.d. krabbamein, hefur verið að ræða þá er staðan gjarnan sú að veikindaréttur eftirlifandi maka eða eftirlifandi foreldris er uppurinn. Það á að horfa til þessara þátta.

Ég vildi einfaldlega eiga þetta samtal við hæstv. ráðherra hér í dag og spyrja hann að því hvort hann geti hugsað sér að leggja þessu máli mínu lið (Forseti hringir.) og beita sér fyrir þessari lagabreytingu.