154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

opinber störf á landsbyggðinni.

346. mál
[17:48]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu um mikilvægt mál. Það er mjög mikilvægt að verið sé að huga að störfum án staðsetningar en ég vil nota þetta tækifæri til að koma inn á störf með staðsetningu. Kannski er fyrsta verkefnið sem við ættum að fara í þegar verið er að huga að því að dreifa störfum enn frekar um landið að greina það hvaða störf þurfa að vera með staðsetningu. Gott dæmi um það er einmitt umrætt starf á Þórshöfn sem hv. fyrirspyrjandi spurði hér um. Þar þarf hlutastarf fyrir sýslumannsembættið en þá er einmitt upplagt að nota tækifærið og færa jafnframt óstaðbundin verkefni, því að það er ekki endilega víst að staðbundna starfið krefjist 100% vinnuframlags.