154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

skipulögð brotastarfsemi.

323. mál
[18:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir að vekja máls á þessu hér og þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og taka undir það sem fram kemur í máli hæstv. ráðherra. Ég held að það sé ofboðslega mikilvægt að við vinnum náið með öðrum Norðurlöndum í þessum málum og mikilvægt auðvitað að lögreglan hafi bæði þær heimildir og þau aðföng sem hún þarf til að uppræta skipulagða brotastarfsemi.

Ég er nýkomin frá Ósló þar sem ég var á Norðurlandaráðsþingi og við vorum að ræða þetta mikið við kollega okkar og sérstaklega auðvitað höfum við miklar áhyggjur af því sem er að gerast í Svíþjóð og ræddum þar við sænsku þingmennina. Maður var að reyna að átta sig á því hvað er hægt að læra af þeim, hvað við getum gert betur og öðruvísi, og þar kom skýrt fram að það skiptir auðvitað öllu máli að lögreglan hafi þau aðföng og þær heimildir sem hún þarf til að uppræta slíka starfsemi og þá skiptir auðvitað rosalega miklu máli að lögregluyfirvöld vinni saman og geti skipst á upplýsingum yfir landamæri. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Hér stendur enn þá ein mínúta þannig að ég hélt að ég gæti bara talað og talað.

(Forseti (OH): Svo er ekki. Tími hv. þingmanns er liðinn.)

Þá bara enda ég á að þakka kærlega fyrir þetta en vil samt segja að ég held að við þurfum að vera vakandi yfir þessu og við í allsherjar- og menntamálanefnd, í samstarfi við hæstv. ráðherra, munum fylgjast vel með þessu máli.