154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í dag ræða stöðu sjúkraflugs hér á landi. Það virðast hafa orðið miklir annmarkar á síðasta útboði á sjúkraflugi hjá Sjúkratryggingum Íslands eins og Björn Gunnarsson, yfirlæknir sjúkraflugs á Akureyri, kemst að orði og hefur ítrekað bent á frá því í ágúst. Hann segir skýrt, með leyfi forseta, að ef ekki verði brugðist við sé augljóst að sjúkraflugsþjónusta versni með nýju útboði. Það lýsir sér í því að þegar aðalsjúkravélin er í verkefni muni taka lengri tíma en áður að fá varavélina í útkall þegar á þarf að halda. Með nýju útboði verði aðalvélin áfram tiltæk alla daga en aukavélin aðeins tiltæk í þrjá daga í viku. Hann segir einnig að það geti orðið erfitt að ná settum markmiðum um viðbragðstíma því það stefni nú í 1.000 sjúkraflug á ári og hvert verkefni geti tekið hátt í fjórar klukkustundir. Hann kemur einnig inn á að ekki hafi verið tekið samtal við þau á Sjúkrahúsinu á Akureyri sem sjá um skipulag læknamönnunar í sjúkraflugi. Þau hafi kallað eftir því í tvo áratugi að meira samráð sé haft við þau.

Mér finnst alvarlegt að ekki sé virkt samtal við Sjúkrahúsið á Akureyri, lykilaðilann sem skipuleggur læknamönnun til að halda úti öflugu sjúkraflugi hér á landi. Við búum nú við þá hættu að taka stórt skref til baka í þróun öflugs sjúkraflugs. Ég spyr því: Er verið að bregðast við annmörkum á þessu útboði til að standa vörð um öflugt sjúkraflug hér á landi?

Annað mál tengt þróun sjúkraflugs sem mig langar að nefna varðar hámarksþyngd þeirra einstaklinga sem geta fengið lífsnauðsynleg sjúkraflug. Finna verður leiðir til að auka við leyfilega þyngd í sjúkraflugi í dag. Ef það er ekki gert er augljóst að tryggja verður staðsetningu þyrlu á Akureyrarflugvelli sem sinnir einnig bráðaerindum á landsbyggðinni. Það myndi efla alhliða björgunarviðbragð og tryggja að allir íbúar þessa lands hefðu kost á sömu heilbrigðisþjónustu þegar bráð veikindi ber að höndum.