154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Það er einkum tvennt sem rætt er um á Íslandi þessa dagana, það eru jarðhræringar á Reykjanesskaga og síðan staðan á Gaza. Þar sem ég tel stöðuna á Gaza öllu alvarlegri þá ætla ég að nýta mínar tvær mínútur til að ræða þá stöðu sem þar er uppi og hugsanleg viðbrögð Alþingis við henni.

Í fyrirspurnatíma hér á Alþingi í gær beindu þingmenn spurningum að utanríkisráðherra. Það var ekki annað að heyra en að Alþingi gæti sameinast um að senda frá sér ályktun sem fæli það í sér að þingið fordæmdi hryðjuverkaárásir Hamas á saklaust fólk þann 7. október sl. en ekki síður þær aðgerðir Ísraelsmanna í kjölfarið sem hafa kostað þúsundir almennra borgara lífið.

Nú eru komnar fram tvær tillögur að ályktun, báðar ágætar að mínu mati en þó ólíkar að forminu til. Ég myndi alveg treysta mér til að greiða báðum þessum tillögum atkvæði mitt en það er ekki víst að allir séu tilbúnir til þess. Það er því rétt að utanríkismálanefnd taki málið í sínar hendur, skoði að sameina tillögurnar í eina og klári þannig að sómi sé að. Eins og staðan er núna þá hafa u.þ.b. 12.000 einstaklingar látið lífið í þessum hræðilegu aðgerðum, bæði ungir og aldnir, konur og börn. Það er engan veginn ásættanlegt að herveldið Ísrael, dyggilega stutt af Bandaríkjunum, bregðist við á þann hátt sem það hefur gert og murki lífið úr saklausum borgurum dag hvern. Markmið Ísraelsmanna er að tortíma Hamas-samtökunum en sagan kennir okkur hins vegar að í jarðvegi sem þessum munu nýjar öfgar alltaf spretta upp. Ofbeldinu verður ekki útrýmt með meira ofbeldi. Það er því skylda okkar að fordæma þessar árásir og tala þar einum rómi sem þjóð.