154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Sameining framhaldsskóla.

[14:19]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Bókvitið verður ekki í askana látið, sagði einhver örvæntingarfullur einstaklingur hérna fyrir langalöngu. Þetta viðhorf hefur endurspeglað afstöðu ansi margra Íslendinga til menntamála. Við erum stolt af menningunni okkar og arfleifð en allt nám á að vera skilvirkt. Það má ekki taka of mikinn tíma frá öðrum störfum og það má ekki standa of lengi. Við sjáum ýmis teikn á lofti um að stytting framhaldsskólastigsins hafi til að mynda að mörgu leyti verið verulega vanhugsuð, enda fyrst og fremst hugsuð út frá því einu að lækka ríkisútgjöld.

Frá því að fyrirhuguð sameining menntaskólanna tveggja, MA og VMA, var kynnt fyrr í haust hefur hins vegar verið áhugavert að fylgjast með viðbrögðum þvert á alla stjórnmálaflokka. Það hefur hreinlega ekki skapast viðlíka sátt um andstöðu gagnvart einhverju einu málefni í seinni tíð og gegn fyrirætlunum ráðherra. Og fólk heldur ekki aftur af sér og ekki að ástæðulausu. Hér erum við ekki bara að tala um fyrirsjáanlega innkomu þeirra sem vilja verja fjársveltar menntastofnanir. Nei, við tölum líka um hörðustu hægri menn sem hingað til hafa ekki verið þekktir fyrir annað en að breiða út boðskap aðhalds í ríkisfjármálum. Það líst hreinlega engum vel á þessar hugmyndir, enda hefur ráðherra ekki greint okkur frá neinum samfélagslegum og þjóðfélagslegum ávinningi af þessum aðgerðum sem leiða ekki að því sem er sjálfsagt að gera í velferðarkerfinu.

Hæstv. ráðherra var samt hnarreistur þegar þessar breytingar voru boðaðar. Rökin voru fyrirsjáanleg. Sífellt er bent á okkar viðkvæmustu hópa; fatlaða, ungt fólk af erlendum uppruna sem þarf að finna sér stað í menntakerfinu og aðra hópa sem metnaðarfullt velferðarkerfi á að grípa án þess að haft sé í hótunum um sameiningu mikilvægra innviða.

Hér er í sífellu endurtekið í þingsal og annars staðar að þessi sameining sé ekki sameiningarinnar vegna. En til hvers er hún þá? Býr þarna einhver menntastefna að baki? Þau vandamál sem sameiningin á að leysa er heimatilbúin vanræksla velferðarkerfa, sérsmíðuð af þessari ríkisstjórn. Kanína hefur núna verið dregin upp úr hatti. (Forseti hringir.) Þetta er ekki síðasta tillagan sem við höfum séð um sameiningar í menntaskólakerfinu. Það er svo auðsjáanlegt (Forseti hringir.) að jafnaðarmenn eru ekki við völd.