154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Sameining framhaldsskóla.

[14:48]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Það blasir auðvitað við okkur öllum að ríkisvaldið þarf að stíga fastar inn til að styðja við Seðlabankann í því skyni að ná niður verðbólgu og vöxtum og því miður hefur ríkisstjórnin ekki staðið vaktina með Seðlabankanum. Afleiðingarnar eru þrálátari verðbólga og enn hærri stýrivextir en þyrftu að vera. Sameining stofnana ríkisins og hagræðing er auðvitað tól í þessari baráttu, hagkvæmari ríkisrekstur skiptir auðvitað alltaf máli en ekki síst nú. En það er algjört grundvallaratriði að við sameinum ekki stofnanir til þess eins að sameina. Krafan um hagræðingu getur ekki verið eina leiðarstefið við sameiningu framhaldsskóla. Sameiningin þarf að efla skólana, auka gæði menntunar, auka námsframboð auk þess að draga úr kostnaði, svo fátt eitt sé nefnt.

Minn flokkur hefur alltaf talað fyrir því að menntakerfið tryggi fjölbreytni og valfrelsi, valfrelsi um námsbrautir, fyrirkomulag kennslu, bekkjakerfi eða áfangakerfi og áfram mætti lengi telja. Það vekur því nokkra furðu að með fyrstu hugmyndum sem kynntar eru eru á svæðum þar sem valfrelsið er ekki mikið og það er vont að halda af stað þegar hugmyndin er augljóslega í óþökk nemenda, starfsfólks og stjórnenda skólanna. Ég efast ekkert um góðan vilja hæstv. ráðherra og það er ánægjulegt að hann hafi pólitískan kjark til að bakka þar sem þess er þörf vegna andstöðu. En það er lykilatriði að fara ekki þannig af stað að hugmyndirnar skapi ófrið og úlfúð. Það þarf að vinna hugmyndir um samstarf og sameiningu með því fólki sem hefur hag af áformunum og kalla til helstu sérfræðinga okkar á verksviði og aðstæðum skólanna eða stofnananna. Ég hef raunverulegar áhyggjur af því að framganga ráðherra í tengslum við mögulega sameiningu MA og VMA muni bitna á öðrum hugmyndum um sameiningu og þar eru auðvitað mestu möguleikarnir hér á höfuðborgarsvæðinu. Traust er síðan auðvitað lykilhugtak í þessari vinnu allri. Við þurfum að huga sérstaklega að því að áhersla á bóknám kæfi ekki viðleitni til þess að efla iðnnám sem er bráðnauðsynlegt að gera. Að lokum vil ég segja að það er fagnaðarefni að stjórnvöld vilji leita leiða til að styrkja skólastarf (Forseti hringir.) með sameiningu þar sem það er raunhæft en það er að sama skapi brýnt að gætt sé að faglegum rökstuðningi (Forseti hringir.) og að krafan um samráð sé virt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)