154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[11:34]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Bjarni Jónsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Utanríkismálanefnd öll krefst þess í sameiginlegri tillögu að komið verði á vopnahléi á Gaza. Það er afar mikilvægt að rödd Íslands sé sameinuð og skýr á tímum sem þessum. Það er þýðingarmikið að fulltrúar allra flokka á Alþingi í utanríkismálanefnd hafi sameinast um tillögu fyrir Alþingi fyrir hönd íslensku þjóðarinnar sem kveður á um tafarlaust vopnahlé fyrir botni Miðjarðarhafs og þar sem allt ofbeldi er fordæmt.

Í tillögu utanríkismálanefndar segir að án tafar skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo tryggja megi öryggi almennra borgara, jafnt palestínskra sem ísraelskra. Alþingi fordæmir enn fremur öll ofbeldisverk sem beinast gegn almennum borgurum í Palestínu og Ísrael. Alþingi krefst þess í tillögunni að alþjóðalögum sé fylgt í einu og öllu, í þágu mannúðar, öryggis almennra borgara og verndar borgaralegra innviða.

Hér sendir Ísland skýr skilaboð, einnig með því að fordæma hryðjuverkaárás Hamas-liða á almenna borgara í Ísrael sem hófst 7. október 2023. Við köllum eftir því að saklausum gíslum verði sleppt úr haldi nú þegar. Alþingi fordæmir sömuleiðis allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda í kjölfarið sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, þar með talið óheyrilega þjáningu, manntjón, mannfall almennra borgara og eyðileggingu borgaralegra innviða. Tryggja verður aðgengi hjálpar- og mannúðarsamtaka og koma neyðarvistum og læknisaðstoð til almennings tafarlaust.

Við teljum brýnt að öll brot stríðandi aðila á alþjóðalögum verði rannsökuð til hlítar og leggjum til að ríkisstjórninni verði falið að beita sér fyrir viðbótarframlagi til mannúðaraðstoðar og rannsóknar á brotum á alþjóðalögum til að fylgja eftir þeim áherslum sem fram koma í tillögu utanríkismálanefndar. Blæbrigði geta verið á framsögum okkar hér í dag en stefna Alþingis er skýr og mun nú liggja fyrir skriflega í þingskjali sem allir flokkar tóku undir og gerðu að sínu; okkar skýru skilaboð.

Við bregðumst nú við hræðilegu ofbeldi og drápum á saklausum börnum og almenningi, hundruðum og þúsundum saman á óþekktum skala á svæðinu samanborið við síðustu tugi ára. Aðstæður hafa hins vegar lengi verið óbærilegar. Meira en helmingur Palestínumanna reiðir sig á matargjafir frá Sameinuðu þjóðunum og hefur gert lengi og flestir íbúar Gaza-strandarinnar búa í flóttamannabúðum. Helmingur íbúa svæðisins eru börn og meira en helmingur er atvinnulaus. Það er hræðileg staða og óboðlegt að alþjóðasamfélagið láti það ekki einungis viðgangast árum saman og áratugum saman heldur hafi staðið aðgerðalítið hjá meðan sú öfgahægri stjórn sem ráðið hefur ríkjum í Ísrael undanfarin ár hefur gengið út fyrir áður þekkt mörk í kúgun sinni, yfirgangi og þeirri þjáningu sem börn og almenningur hefur mátt líða af þeirra völdum. Þetta ólýsanlega harðræði hefur kynt undir öfgaöfl en um leið dregið máttinn úr þeirri hreyfingu Palestínumanna sem sótt hafa rétt sinn með friðsamlegri hætti og treyst þar einnig á aðkomu alþjóðasamfélagsins. Þar er ábyrgð ekki síst stærri þjóða sem hafa tekið sér stærst pláss á alþjóðavettvangi í krafti hernaðarstyrks, sem viðskiptaveldi, lönd sem vilja kalla sig stórveldi eða alla vega einhverja spaða á alþjóðavettvangi, mikil og afdrifarík. Í skjóli þessa afskiptaleysis, áframhaldandi hernaðar og fjárhagsstuðnings án þess að stjórnvöld í Ísrael hafi verið látin sæta ábyrgð, tekin því taki að þau komist ekki lengur upp með landtöku, kúgun og niðurlægingu þjóðar Palestínumanna, hafa þau keyrt palestínsku þjóðina ofan í svörðinn með ofbeldi í krafti yfirburðastöðu sinnar og stóran hluta hennar til áframhaldandi örbirgðar og þjáninga.

Brot á alþjóðalögum eiga að hafa afleiðingar, hvort sem er fyrir botni Miðjarðarhafs eða annars staðar í heiminum þar sem ófriðarbálin geisa og óvandaðir valdhafar fara með ofbeldi, yfirgangi og landvinningum í krafti hernaðarmáttar gagnvart öðrum þjóðum, steypa þjóðum sínum í stríð og dráp á saklausu fólki. Slíkt á að hafa afleiðingar af hálfu samfélags þjóðanna, slíkt á að hafa afleiðingar gagnvart siðlausum stjórnarháttum ríkjandi valdhafa í Ísrael.

Undanfarna sjö áratugi hafa verið háð stríð, gerðar uppreisnir og komið augnablik þar sem virtist vonarglæta og möguleiki á friði. Jafnharðan hafa slíkar vonir brotnað á skerjum raunveruleikans þegar öfgaöflin skerast í leikinn, öfgaöfl sem næra hvert annað og standa í vegi fyrir réttlátum friði.

Palestínumenn eru ein þjóð, hvar sem þeir eru niðurkomnir, hvert sem þeir hafa verið hraktir og landi þeirra skipt upp, hvernig sem líður stjórnmálalegri samstöðu þeirra hverju sinni, hvernig sem að þeim hefur verið sótt með landtöku, hernaði eða kúgun. Eins og aðrar þjóðir hafa Palestínumenn sjálfsákvörðunarrétt, rétt til að vernda fólk sitt og eigur, til að snúa aftur til landsins og heimila. Réttur palestínskra flóttamanna er sömuleiðis lögmætur samkvæmt alþjóðalögum, grundvallarréttindi sem aldrei skal hvika frá.

Hryðjuverkaárás Hamas á saklaus börn og almenning í Ísrael var hræðileg. Það fjöldadráp á börnum og almenningi á Gaza sem nú fer fram er sömuleiðis gersamlega yfirgengilegt og þann hrylling verður að stöðva sem og áframhaldandi dráp á báða bóga. Tafarlaust verður að binda enda á árásirnar og ofbeldið. Við verðum að hvetja til þess með öllum ráðum að unnið verði áfram að því að koma á friði, réttlæti og stöðugleika til framtíðar, með tveggja ríkja lausn, með sambandsríki þjóða sem lifa saman í friði og vinsemd, hvora leiðina sem við teljum að við getum náð árangri með. Einungis þannig getum við tryggt að Palestínumenn og Ísraelsmenn geti búið við frið til framtíðar.