154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

467. mál
[14:18]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, leyfi til prófana á vinnslu- veiðarfærabúnaði.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það sem ég les í 1. gr. frumvarpsins, sem bætist við 13. gr. laganna, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Veiðist sjávarafli við prófanir skal hann vera óverulegur og seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla á Íslandi og skal andvirði aflans renna til sjóðs skv. 3. mgr. 1. gr. laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992.“

Nú hefði ég haldið, þegar verið er að rannsaka vinnslu- og veiðarfærabúnað skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, að afkastagetan væri mikilvæg og líka hversu umhverfisvæn veiðarfærin væru og hvort það væri ekki rétt að gera kröfu til þess að prófanir myndu miða að því að sýna hversu umhverfisvænn veiðarfærabúnaðurinn væri, að það kæmi alltaf fram í slíkum prófunum hversu umhverfisvænn og góður hann væri fyrir botninn og sjávarlíf hafsins, auk afkastagetu. Það er mjög mikilvægt sem kemur fram í greinargerðinni, að fjárfestingar í rannsóknum eru forsenda framfara í sjávarútvegi. Þá er að sjálfsögðu mikilvægt að hægt sé að prófa tækin og að það sé gert með þeim hætti að það skaði ekki umhverfið.

Varðandi hugtakið óverulegur, hvaða viðmið er átt við? Er verið að hugsa um kvótakerfið og að menn séu að svindla á því, fara fram fyrir afla sem er kvóti, eða vernda fiskstofna og annað slíkt, sem er bara brotabrot af heildaraflanum? (Forseti hringir.) Líka það að aflinn sé settur í sjóð um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla: (Forseti hringir.) Er ekki rétt að hafa sérstakan sjóð, sem er þá rannsóknasjóður sjávarútvegsins en ekki sjóður sem ber þetta heiti?