154. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[12:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka kærlega fyrir samtöl við formenn flokka á Alþingi um að greiða fyrir því að þetta mál geti komist á dagskrá og verði tekið til umræðu í dag. Þetta frumvarp snýst um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga og það er ekki léttvæg staða sem veldur því að Alþingi Íslendinga þurfi að taka slíkt frumvarp til meðferðar. Ég held að við getum öll verið sammála um að sú tilfinning er áþreifanleg hér í salnum.

Framvinda jarðhræringa á Reykjanesskaga undanfarnar vikur er með stærri atburðum á síðari tímum en á föstudagskvöldið ákváðu almannavarnir að rýma bæinn og lýsa yfir neyðarstigi því að ekki var hægt að útiloka að sá kvikugangur sem hefur myndast á þessum slóðum gæti náð til bæjarins. Ákvörðunin var fyrst og fremst tekin með öryggi íbúa í huga en eins og við öll getum ímyndað okkur þá er það risastór ákvörðun að biðja fólk um að yfirgefa heimili sitt með skömmum fyrirvara. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hv. þingmenn hafa verið í samskiptum við Grindvíkinga nú um helgina og við finnum öll hversu þungt þessi óvissa hvílir á þeim. Það er núna verið að leitast við að skapa rými til að íbúar geti sótt nauðsynlegustu hluti í húsi sínu en þó alltaf með öryggi fólks í fyrirrúmi því að það er okkar frumskylda. En ég held við getum öll ímyndað okkur þá óvissu sem hvílir yfir fólki í þessari stöðu.

Staða dagsins í dag einkennist áfram af mikilli óvissu. Eldgos getur hafist á næstu klukkustundum eða dögum og vegna mikillar spennulosunar á svæðinu undanfarna sólarhringa vegna jarðskjálfta föstudagsins og aflögunar getum við ekki gert ráð fyrir því að gosórói mælist áður en eldgos hefst. Skilgreint hættusvæði hverju sinni tekur mið af mati okkar færustu vísindamanna.

Við þekkjum öll forsöguna, það hefur þrisvar gosið á Reykjanesskaga á undanförnum árum; við Fagradalsfjall í mars 2021, í Merardölum í ágúst 2022 og við Litla-Hrút í júlí 2023. Í öllum þessum tilvikum höfum við verið heppin með staðsetningu á eldsumbrotum en eigi að síður hafa eldsumbrotin kallað á umfangsmikið skipulag og samhæfingu almannavarna, ráðuneyta, stofnana, sveitarfélaga og annarra aðila sem bera ábyrgð eftir aðstæðum og tilvikum hverju sinni. Í aðdraganda eldgossins við Fagradalsfjall kom ríkisstjórnin á fót samhæfingarteymi ráðuneytisstjóra sem var falið það hlutverk að samhæfa aðgerðir þvert á ráðuneyti til að tryggja heildstæða yfirsýn og vera í samráði við stofnanir og sveitarfélög. Það teymi hefur séð um upplýsingamiðlun, fjallað um tillögur og beiðnir um fjármögnun aðgerða og tekið afstöðu til stærra ákvarðana. Það er mikilvægt að búa að þessu skipulagi núna. Þegar virkilega reynir á þá finnur maður hvernig kerfið allt, stjórnsýslan, sveitarfélögin, stofnanir okkar virka en síðast en ekki síst Grindavíkurbær, en íbúar þar hafa búið við gríðarlega óvissu miklu lengur en bara núna. Þar vil ég nota tækifærið og hrósa sérstaklega stjórnkerfi bæjarins sem hefur virkað eins og smurð vél í þessum aðstæðum. Það er auðvitað alltaf almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sem er kjarninn í öllum aðgerðum og gerir tillögur um hvað er rétt að ráðast í hverju sinni. Þau starfa með öllum öngum stjórnkerfisins.

Staðan nú er að það hafa þegar orðið umtalsverðar skemmdir á innviðum og mannvirkjum í Grindavík og það hefur ekki verið unnt að bregðast við þeim skemmdum að fullu þó að það hafi verið farið í brýnustu viðgerðir á rafstrengjum og kaldavatnslögnum. Samkvæmt nýjustu upplýsingum má búast við því að það séu frekari skemmdir á innviðum neðan jarðar. Það eru auðvitað mjög umfangsmikil ummerki á yfirborði bæði á vegum og jarðvegi, misfellur nema tugum sentímetra þar sem þær eru mestar. Það er ljóst að dreifikerfi vatns og rafmagns hefur skemmst. Það er þó starfhæft en ekki liggur fyrir nákvæmt mat á þessum skemmdum.

Augljóslega liggja mikil verðmæti í birgðum og lagerum fyrirtækja í Grindavík. Fyrirtæki hafa nú þegar orðið fyrir verulegu tjóni en það er líka ljóst að ekki er unnt að bjarga þeim verðmætum nema öryggi fólks sé tryggt. Það er líka ljóst að röskun verður á afkomu fólks og fyrirtækja á svæðinu til lengri og skemmri tíma. Það stendur yfir vinna við að kortleggja stöðuna þannig að unnt sé að tryggja að núverandi afkomutryggingakerfi grípi fólk í þessari stöðu og þá er ég að sjálfsögðu að vísa í Atvinnuleysistryggingasjóð og þau úrræði sem við eigum í kerfinu en ef ráðast þarf í frekari viðbrögð þá verður það gert í góðu samráði við Alþingi.

Það er auðvitað mikil óvissa um það hversu lengi þessi rýming varir og hvenær Grindvíkingar geta snúið til síns heima. Nú þegar er unnið að því að kortleggja úrræði í húsnæðismálum og stofnanir ríkisins og sveitarfélögin vinna í samstarfi við Grindavíkurbæ að því verkefni að aðstoða fólk við skammtímahúsnæðisúrræði. Það teymi sem er undir forystu innviðaráðherra af hálfu ríkisins hefur líka það verkefni að skoða varanlegri lausnir ef núverandi staða dregst á langinn. Meðal þeirra úrræða sem tekin verða til skoðunar er hvort hægt er að nýta laust íbúðarhúsnæði í landinu, uppbyggingu á sértækum og eftir atvikum færanlegum íbúðareiningum og hvort unnt sé að ráðast í uppbyggingu húsnæðis á völdum svæðum. Þetta, eins og ég segi, kallar á náið samstarf ríkis og sveitarfélaga og fyrst og fremst samtal við íbúa Grindavíkur og þeirra forystufólk.

Það sama á við um samstarf aðila innan heilbrigðiskerfisins og í skólamálum en þann 10. nóvember var hjúkrunarheimilið Víðihlíð rýmt og dvelur heimilisfólk þess nú á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja annars vegar og hins vegar á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu. Á vegum almannavarna fer nú fram gerð áætlana um með hvaða hætti verði hægt að flytja sjúklinga sem dvelja á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Hrafnistu í Keflavík ef til frekari rýminga kemur eða ef loftmengun vegna eldgoss verður viðkvæmum einstaklingum í þessum hópi hættuleg. Það er ekki hægt að útiloka, og þar talar aftur óvissan, að það geti orðið veruleg loftmengun ef aðstæður í eldgosi eru með þeim hætti.

Varðandi skólagöngu þá búa rúmlega 800 börn á leik- og grunnskólaaldri í Grindavík og það hefur verið unnið að því síðustu daga að skipuleggja úrræði fyrir þau. Það er auðvitað algjört lykilatriði að hlúa að börnum og ungmennum í þessari viðkvæmu stöðu og þar er skólagangan auðvitað forgangsmál. En það verður líka að leitast við að börn og ungmenni geti áfram sinnt íþrótta- og tómstundastarfi. Ég hitti Grindvíkinga um helgina sem voru glaðir yfir því að á laugardeginum var körfuboltamót hér í bænum þar sem Grindvíkingar voru að keppa og þau sögðu hversu miklu það skipti að upplifa að lífið héldi áfram, að vera saman á einhverjum einum stað að fylgjast með börnunum í íþróttum. Það skiptir miklu máli að muna að lífið þarf að halda áfram þó að við séum stödd í þessari óvissu og við þurfum að gera allt sem við getum til að það megi verða. Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur í samvinnu við innviðaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga verið í samskiptum við bæjaryfirvöld í Grindavík. Almannavarnanefndin hér á höfuðborgarsvæðinu hefur líka verið virkur þátttakandi í því samtali og það er unnið að því að tryggja megi sem besta samfellu fyrir börn í námi og tómstundastarfi.

Ég vil bara sérstaklega nefna það hve sveitarfélögin hafa komið inn í þetta verkefni með afgerandi hætti. Allt sem gert hefur verið endurspeglar í raun og veru að það eru allir aðilar reiðubúnir að stíga inn og leggja sitt af mörkum til að við getum brugðist við þessu erfiða ástandi. Það er auðvitað mjög mikilvægt að tryggja þjónustu og upplýsingamiðlun til íbúa og við erum að vinna að því að koma upp tímabundnum samkomustað fyrir íbúa Grindavíkur þannig að þau geti komið saman þar, bæði bara til að hittast og drekka kaffi saman en við munum líka tryggja að þar verði ákveðin þjónusta fyrir hendi sem fólk geti leitað til og það verði þjónustu á mörgum tungumálum. Við höfum fundið það líka að íbúar af erlendum uppruna spyrja spurninga og þó að fréttir séu fluttar til að mynda á pólsku og ensku af hálfu Ríkisútvarpsins þá er þetta bara það flókin staða og margar spurningar sem vakna, þannig að það er mjög mikilvægt að hafa þjónustu á mörgum tungumálum, allar spurningarnar sem vakna um húsnæði, atvinnu, skóla og hvernig hægt er að leita hreinlega að stuðningi, sálrænum stuðningi líka.

Frumvarpið sem ég mæli hér fyrir snýst hins vegar bara um sértækt mál. Það snýst um að veita heimildir og skapa svigrúm til að ráðast í fyrirbyggjandi framkvæmdir til að verja innviði og íbúabyggð vegna yfirvofandi náttúruvár. Það eru víðtækar heimildir í almannavarnalögum til að grípa til aðgerða eftir að hættu- eða neyðarstigi hefur verið lýst yfir en mun minna svigrúm er til staðar til að ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir á fyrri stigum. Núna þegar við erum til að mynda stödd á neyðarstigi þá er auðvitað ekki færi til þess að vera að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum því að við stefnum ekki fólki í hættu til þess. En það er hins vegar mjög mikilvægt að slíkar heimildir séu til staðar í lögum þannig að um leið og ástandið breytist sé unnt að ráðast í slíkar fyrirbyggjandi aðgerðir. Um þetta hefur verið spurt og ég vona að þetta skýri það.

Þær aðgerðir sem er lagt til hér að dómsmálaráðherra fái heimild til að ráðast í, að tillögu almannavarna, byggja á áhættugreiningum vísindamanna og annarra sérfræðinga til að varna eða eftir atvikum lágmarka tjón af völdum yfirvofandi náttúruvár. Markmiðið er að unnt sé að fara umsvifalaust í nauðsynlegar fyrirbyggjandi framkvæmdir til að afstýra eða draga úr tjóni á mikilvægum innviðum eða öðrum almannahagsmunum áður en það er um seinan.

Þannig er aðdragandi þessa máls að almannavarnir sendu tillögu til dómsmálaráðherra á fimmtudagskvöld þar sem óskað var eftir því að ráðist yrði í að tryggja slíka heimild til að ráðast í slíkar fyrirbyggjandi aðgerðir. Málið var rætt í ríkisstjórn á föstudagsmorgun og frumvarp smíðað sem var dreift svo hér á Alþingi á laugardaginn. Vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem eru uppi er ráðgert að dómsmálaráðherra verði heimilt að taka ákvörðun um tilgreindar framkvæmdir án þess að gæta þurfi að hefðbundinni málsmeðferð samkvæmt skipulagslögum og öðrum lögum sem annars gilda um undirbúning, töku og framkvæmd slíkrar ákvörðunar. Til að vega upp á móti þessu gerir frumvarpið ráð fyrir að við slíka ákvarðanatöku sé gætt samráðs við hlutaðeigandi landeigendur, tiltekna ráðherra og stofnanir auk viðkomandi sveitarfélags og tekið sé tillit til sjónarmiða þeirra eftir því sem tími vinnst til.

Ég vil nefna í því sambandi að margar þeirra stofnana sem eru tilgreindar sem umsagnaraðilar í frumvarpinu hafa þegar komið á framfæri vilja sínum til samstarfs, sem er til fyrirmyndar, um framkvæmdina sem er fram undan; Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Minjastofnun Íslands, Skipulagsstofnun. Allt eru þetta stofnanir sem þekkja vel slíkar framkvæmdir út frá þeim leiðigörðum sem voru reistir við fyrri eldsumbrot þannig að ég fagna því að þessar stofnanir hafa lýst yfir vilja sínum til samstarfs við framkvæmdina og sýna skilning á þeirri stöðu sem uppi er. Almannavarnir munu boða þessar stofnanir, sem kveðið er á um í 3. gr. frumvarpsins, á sérstakan samráðsfund um byggingu varnargarðanna. Að sjálfsögðu, og við erum vafalaust öll sammála um það, er mikilvægt að leitast verði við að lágmarka umhverfis- og útlitsáhrif af framkvæmdum eftir því sem unnt er hverju sinni.

Í frumvarpinu er einnig lögð til gjaldtaka til þriggja ára í þeim tilgangi að standa undir kostnaði við fyrirbyggjandi framkvæmdir og gjaldið rennur í ríkissjóð. Er lagt til að það verði innheimt af brunatryggðum húseignum. Spurningar hafa vaknað hvort aðrar leiðir séu heppilegri eins og til að mynda að nýta fjárveitingar ofanflóðasjóðs. Okkar mat er það að þetta fyrirkomulag sé bæði sveigjanlegra og þjálla en að fara með fjármögnun framkvæmdanna í gegnum ofanflóðasjóð sem er í umsjón ofanflóðanefndar. Ofanflóðasjóður fjármagnar venju samkvæmt verkefni sem hafa framkvæmdaáætlun til fimm ára. Hér er verið að tala um mjög snögga ákvarðanatöku þar sem þarf að bregðast hratt við og leggja til gjald sem leggst á brunatryggðar húseignir en áhrif gjaldtökunnar á vísitölu neysluverðs eru talin óveruleg. Ég get nefnt sem dæmi að gjald af íbúð með brunabótamat að fjárhæð 100 millj. kr. næmi um 8.000 kr. á ári en gjaldið nemur um 0,08‰ af brunabótamati.

Það er verið að formfesta ákveðnar boðleiðir í þessu frumvarpi til ákveðins tíma því að þetta er tímabundið frumvarp og við metum það að þessi gjaldtaka, með því að setja í raun og veru á laggirnar sérstakt gjald fyrir þessar framkvæmdir í sérstakan sjóð, sé til þess fallin að gera framkvæmdina einfaldari, sveigjanlegri og þjálli. Við leggjum líka til að hún sé tímabundin þannig að unnt sé síðan að nota tímann fram undan til að skoða hvernig við viljum haga þessum málum til lengri tíma. Því miður er það þannig, a.m.k. á mínum tíma í þessu embætti, að þá hefur allmikið dunið á í náttúrunni og ég held að við getum bara horfst í augu við það að það er ekkert ólíklegt að svo verði áfram, hvort sem um er að ræða eldsumbrot á Reykjanesskaga eða aðra náttúruvá sem hefur verið kortlögð ágætlega af hálfu íslenskra stjórnvalda og hæstv. umhverfisráðherra kynnt góða skýrslu um þau málefni þar sem við getum líka átt eftir að sjá áhrif loftslagsbreytinga og annað. Ég held að það sé mikilvægt að við tökum síðar dýpri umræðu um það hvernig við viljum nákvæmlega hátta þessum málum. En þessu gjaldi er sem sagt ætlað að fjármagna þær framkvæmdir sem dómsmálaráðherra mun ákveða að ráðast í.

Ég vil aðeins ræða það hér, svo að það sé algerlega skýrt, að í frumvarpinu er fjallað ágætlega um þessar framkvæmdir, þ.e. uppbyggingu varnargarða, gerð varnarfyllinga yfir veitumannvirki og gröft leiðarskurða. Svo að við segjum þetta á mannamáli þá snýst þetta um það að gera okkar til að reyna að verja byggðina í Grindavík og orkuverið í Svartsengi. Það liggja auðvitað mikil verðmæti í eignum í sveitarfélaginu Grindavík sem er mikilvægt að vernda ef nokkur kostur er, fjárhagsleg verðmæti og ekki síður tilfinningaleg verðmæti, hvort sem um er að ræða atvinnurekstur sem í mörgum tilfellum hefur verið ævistarf íbúa eða heimili, sem eru u.þ.b. 1.200 í þessu bæjarfélagi. Orkuverið í Svartsengi ásamt borholusafni og vinnslubúnaði hefur auðvitað umtalsvert fjárhagslegt virði en ekki síður vil ég vekja athygli hv. þingmanna á því að það yrði mjög vandasamt og kostnaðarsamt að koma á varaafli. Fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að kostnaður við kaup á neyðarkyndistöðvum sem duga fyrir lágmarksupphitun fyrir öll Suðurnes, sem er u.þ.b. 30.000 manns, og annan nauðsynlegan búnað sé um 2 milljarðar kr. en olíukostnaður vegna neyðarkyndistöðva gæti numið 800– 1.500 millj. kr. á mánuði auk annars rekstrarkostnaðar. Einn slíkur kyndiketill er til á landinu og unnið er að því að fullgreina hvaðan unnt er að kaupa slíka katla og flytja hingað með flugi. Hins vegar er alveg ljóst að umhverfisáhrif af rekstri slíkrar kyndistöðvar fyrir 30.000 manns yrðu veruleg og hún hefði í för með sér mikinn olíubruna. Kostnaðurinn við uppbyggingu varnargarðs við Svartsengi er áætlaður 2,5 milljarðar. Auðvitað er alltaf einhver óvissa, sem gert er ráð fyrir að sé um 20% en að hún minnki eftir því sem framkvæmdinni vindur fram og við sjáum betur hvernig þetta gerir sig.

Gjaldtakan sem ég nefndi hér áðan mun hafa þau áhrif á ríkissjóð að tekjur aukast nálægt 1 milljarði kr. á árinu 2024. Tekjur ríkissjóðs af gjaldinu munu næstu tvö árin fylgja brunabótamati þeirra húseigna sem skylt er að tryggja samkvæmt lögum um náttúruhamfaratryggingu og mér finnst mikilvægt að nefna að áhrif gjaldtökunnar á vísitölu neysluverðs eru talin óveruleg.

Aðdragandi þessa máls hefur auðvitað verið stuttur, eins og ég nefndi þá sendu almannavarnir þetta erindi á fimmtudagskvöld, en hins vegar var búið að vinna mikla vinnu við að kortleggja innviði, kortleggja og hanna slíka varnargarða ef til þess kæmi, þannig að það lá fyrir mikill undirbúningur. Þetta frumvarp var ekki sett í samráðsgátt Stjórnarráðsins vegna aðstæðna. Eigi að síður hefur verið mjög góð samvinna milli ráðuneyta, forsætisráðuneytis, að sjálfsögðu dómsmálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og innviðaráðuneytis, um efni frumvarpsins. Það er ekkert útilokað að fleiri þingmál kunni að koma til kasta Alþingis vegna þessarar stöðu á Reykjanesskaga en um það er of snemmt að segja núna. Við þurfum bara einfaldlega að fylgjast með.

Ég tel að ég hafi gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins en ég vil einfaldlega segja að lokum að ég held að það skipti miklu máli að halda því til haga að formenn allra flokka á Alþingi tóku því einstaklega vel þegar ég hafði samband við þau á föstudaginn um að von væri á þessu frumvarpi. Það er vegna þess að þegar á reynir þá getur Alþingi Íslendinga hafið sig yfir okkar hversdagslegu þrætuefni, sem eru auðvitað mörg og mismunandi. Ég held að það skipti máli, ekki bara fyrir landsmenn alla heldur ekki síst íbúa í Grindavík. Það skiptir líka máli að við eigum ótrúlega gott kerfi viðbragðsaðila og vísindamanna og sjálfboðaliða, fólks sem er búið að vera á vaktinni mörg undanfarin ár því að margt hefur dunið á. Það hefur verið vakið og sofið undanfarna daga yfir þessari stöðu, að reyna að taka bestu mögulegu ákvarðanir til að vernda fólk. Stjórnkerfið allt er núna að helga sig þessu verkefni, ekki bara af hálfu ríkisins heldur líka, eins og ég segi, sveitarfélaga og stofnana um land allt því að það skiptir gríðarlegu máli.

Það reynir á íslenskt samfélag að sýna úr hverju það er gert þegar svona atburðir steðja að og í þessum málum er það óvissan sem er kannski þyngst og þungbærust því að við vitum ekki nákvæmlega hvað er að fara að gerast. Það er auðvitað gríðarlega erfitt fyrir þau sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín og vita ekkert um framhaldið. Þá skiptir máli að við sem samfélag stöndum með þeim. Þó að maður upplifi sig magnlausan gagnvart eyðileggingarmætti náttúrunnar þá skiptir líka máli að rifja upp seigluna sem við búum yfir sem samfélag. Við erum reiðubúin að takast á við það sem gerist. Íbúar Grindavíkur eru ekki einir í þessu viðfangsefni. Samfélagið allt stendur með þeim alla leið.

Ég hef gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.