154. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[13:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég og við í Miðflokknum munum að sjálfsögðu styðja þetta mál eins og ég hef þegar lofað hæstv. forsætisráðherra, enda löngu orðið tímabært að veita heimildir til að ráðast í þær aðgerðir sem hér eru nefndar og ég raunar kallaði eftir í síðustu viku. Það eru þó ákveðin atriði sem ég tel rétt að gera athugasemd við og hvet til að fái umræðu í nefndinni. Þar á ég einkum við þau áform að leggja á nýjan skatt eða hækka skatta til að ráðast í þessar hugsanlegu og líklegu framkvæmdir. Ég hefði talið æskilegra að nýta þá sjóði sem fyrir eru til að ráðast í þær aðgerðir sem þarf, hvort sem þar er litið til náttúruhamfaratryggingar eða ofanflóðasjóðs, og talið einfaldast að breyta reglum um þá sjóði, til að mynda ofanflóðasjóðs svo hægt væri að nýta hann strax í þessar aðgerðir enda hafa þar safnast saman meiri peningar heldur en hægt hefur verið að nýta á undanförnum árum og raunar ríkisstjórnin gengið á sjóðinn og notað í önnur verkefni. Spurt var um þetta 2019, held ég að það hafi verið, og það var þegar búið að nýta 10 milljarða úr þeim sjóði í önnur verkefni heldur en ofanflóðavarnir. Ég tel því æskilegt að nefndin og þingmenn skoði möguleika sem þessa svo hægt sé að nýta það fjármagn sem fyrir er hratt og vel.

Að því sögðu fagna ég því þó að sjálfsögðu að brugðist sé við núna og eins og segi er það ekki seinna vænna. Mér skilst að varnargarðar í kringum eða í nágrenni Grindavíkur og Svartsengis hafi verið hannaðir fyrir þremur árum síðan þannig að undirbúningsvinna hefur farið fram að einhverju eða miklu leyti og ætti að vera hægt að ráðast í framkvæmdir hratt þegar menn eru búnir að meta það hvar og hvernig eigi að ráðast í þær.

Við skulum líka hafa í huga að hvernig sem fer með hugsanlegt eldgos hefur þegar orðið gríðarlegt tjón í Grindavík. Það þarf að liggja fyrir tímanlega hvernig verður tekist á við það. Við höfum séð myndir af götum en getum rétt ímyndað okkur hvort þetta hafi ekki haft mjög veruleg áhrif á annað sem við höfum ekki séð; heimili fólks, annað húsnæði, lagnir o.s.frv. Það getur orðið dýrt að ráðast í að bæta þar úr. En það er betra að fyrir liggi í tæka tíð hvaða reglur munu gilda um það og hvernig staðið verði að því fremur en að farið verði í að deila um það eftir á.

Hvernig sem fer með hugsanleg eldsumbrot eru allar líkur á því að við samfélagið munum þurfa að spara á öðrum sviðum, forgangsraða í þágu Grindvíkinga, og ég ímynda mér að allir landsmenn geti sameinast um það. Það má ekki gleyma því heldur að þetta mun hafa langtímaáhrif á svo mörgum sviðum. Það mun þurfa umtalsverðan sálrænan stuðning til að mynda fyrir íbúa Grindavíkur á komandi tímum eftir það sem þeir hafa þegar gengið í gegnum, ég tala nú ekki um ef það fer verr. Það má ekki heldur gleyma mikilvægi atvinnulífs og verðmætasköpunar fyrir þetta byggðarlag og fólkið sem þar starfar. Þess vegna hvet ég stjórnvöld einnig til að huga að því strax hvernig verður komið til móts við verðmætasköpunina í samfélaginu og vernd starfa eða takist það ekki, takist ekki að vernda störfin vegna náttúruhamfaranna, þá sé til reiðu áætlun um hvernig komið verði til móts við fólkið fjárhagslega.

Það þarf einnig að huga að þáttum á borð við flug til og frá landinu. Er allt til reiðu ef Keflavíkurflugvöllur skyldi lokast til lengri eða skemmri tíma? Hvernig er staðan á Akureyrarflugvelli, Egilsstaðaflugvelli o.s.frv. til að taka þá við hlutverki Keflavíkurflugvallar? Auðvitað vonum við að ekki komin til lokana um Keflavík og gerum ekkert ráð fyrir því, líkur á gosi í hafi hafa til að mynda, að mér skilst, heldur minnkað. En þetta er tíminn til að undirbúa ráðstafanir til að mæta ólíkum sviðsmyndum, ólíkum atburðum.

Ég held líka að við ættum að nota tækifærið, við þingmenn, eins og fleiri hafa gert hér auðvitað, og þakka því fólki sem þessa dagana vinnur dag og nótt að því að takast á við þessar miklu raunir og vernda Grindvíkinga og aðra landsmenn og halda okkur upplýstum. Ég hvet til þess að hugað verði sérstaklega að stuðningi við þá sem vinna þá vinnu, til að mynda björgunarsveitirnar, ekki hvað síst björgunarsveitina Þorbjörn í Grindavík.

Loks óska ég Grindvíkingum öllum, eins og við þingmenn allir gerum, velfarnaðar og þeir mega vita að við þingmenn hér munum allir standa með þeim og ég er fullviss um að það muni landsmenn allir gera líka.