154. löggjafarþing — 29. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[22:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fjalla um nefndarálit um þetta frumvarp sem við höfum verið að fjalla um hér í dag. Mig langar fyrst að segja að það er aðdáunarvert það æðruleysi sem Grindvíkingar sýna á þessum tíma og við stöndum að sjálfsögðu heils hugar á bak við þá. Við erum auðvitað vanmáttug, manneskjan, þegar kemur að náttúruöflunum en með þessu frumvarpi er þó gerð einhvers konar tilraun til að bregðast við þegar kostur er. Við höfum í allsherjar- og menntamálanefnd farið yfir þetta frumvarp í dag og fengið til okkar fjölda gesta. Mig langar að byrja á að þakka öllum þeim sem brugðust hratt og vel við og komu í heimsókn til okkar í nefndinni og svöruðu spurningum okkar, en jafnframt liggja fyrir umsagnir í málinu.

Með þessu frumvarpi er lagt til að ráðherra sem fer með málefni almannavarna verði veitt skýr lagaheimild til að taka ákvörðun á grundvelli tillögu ríkislögreglustjóra og að höfðu samráði við stjórnvöld og fleiri um nauðsynlegar framkvæmdir í þágu almannavarna sem miði að því að koma í veg fyrir að mikilvægir innviðir og aðrir almannahagsmunir verði fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara sem tengjast eldstöðvakerfunum á Reykjanesskaga. Nefndin hefur fjallað um málið og telur brýnt að það nái fram að ganga svo unnt sé að grípa til nauðsynlegra aðgerða með það að markmiði að tryggja almannahagsmuni vegna aðsteðjandi náttúruvár sem fyrir dyrum er á Reykjanesskaga og er nánar fjallað um í greinargerð með frumvarpinu.

Með frumvarpinu er mælt fyrir um takmarkanir á eignarrétti á grundvelli almannahagsmuna en um er að ræða stjórnarskrárvarin réttindi, sbr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir mikilvægi þess að heimilt verði að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana til að unnt verði að tryggja umsvifalaust nauðsynlegar framkvæmdir til að afstýra eða draga úr tjóni á mikilvægum innviðum og öðrum almannahagsmunum á grundvelli lögmætra og málefnalegra sjónarmiða.

Meiri hlutinn áréttar það sem fram kemur í greinargerð þar sem segir hvað þetta varðar:

„Þar sem framkvæmdir samkvæmt ákvæðum frumvarpsins eru sem fyrr segir bundnar skilyrði um nauðsyn myndi þó verða að áskilja að lágmarki að óvissustigi hafi verið lýst yfir, til þess að yfirleitt kæmi til álita að grípa til þeirra ráðstafana sem frumvarpið veitir heimild fyrir“.

Meiri hluti nefndarinnar beinir því til dómsmálaráðherra að leita leiða til að tryggja eftirlit með framkvæmd þeirra ákvarðana sem ráðherra hefur heimild til að taka á grundvelli laganna. Í því sambandi horfir meiri hluti nefndarinnar til ákvæða skipulagslaga og til þess eftirlits með framkvæmdum sem mælt er fyrir um í þeim lögum. Þá beinir meiri hluti nefndarinnar því til dómsmálaráðherra að meta hvort þörf sé á að tilkynna frumvarpið eða ráðstafanir á grundvelli þess, svo sem til sameiginlegu EES-nefndarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA.

Hvað samráðið varðar við framkvæmdirnar er auðvitað mikilvægt að samráð eigi sér stað ef þess er nokkur kostur við þær stofnanir og þá aðila sem um ræðir. Það kom skýrt fram í heimsóknum til okkar í dag og hjá umsagnaraðilum að þar býr auðvitað líka mikil sérfræðiþekking og við brýnum fyrir ráðherra að nýta sér þá þekkingu og eiga í því samráði þegar því er við komið. Líkt og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu kann að vera mikilvægt að fá fram sjónarmið frá viðkomandi sveitarfélagi og stjórnvöldum „um skipulagsleg atriði, náttúruvernd, vernd menningarminja og innviða, ríkisfjármál og aðra þætti sem framkvæmdir samkvæmt ákvæðum frumvarpsins geta haft áhrif á og eðlilegt er að ráðherra taki eftir föngum tillit til við ákvarðanatöku um framkvæmdir og útfærslu þeirra“. Meiri hlutinn telur það sérstaklega mikilvægt með hliðsjón af þeim lagabálkum sem er vikið frá við undirbúning, töku og framkvæmd ákvörðunar á grundvelli 4. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Skal ráðherra þá taka mið af tillögum og athugasemdum eins og kostur er þó að þær bindi ekki né hafi áhrif á gildi ákvörðunar ráðherra.

Þá ætla ég að fjalla hér aðeins um forvarnagjaldið sem einnig er hluti af frumvarpinu og er fjallað um það í nefndaráliti en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Þótt gjaldið renni í ríkissjóð er því ekki ætlað að bæta afkomu hans, heldur standa straum af þeim sérstöku framkvæmdum sem ráðist verður í á grundvelli 2. gr. frumvarpsins. Því er sérstaklega mikilvægt að gagnsæi ríki um ráðstöfun þeirra fjármuna sem renna til ríkissjóðs á grundvelli 4. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn beinir því til dómsmálaráðherra að viðhafa virka upplýsingagjöf til Alþingis um þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í og útgjöld ríkissjóðs vegna þeirra.“

Þá kom jafnframt til umræðu í nefndinni og komu ábendingar um það að mögulega ættu lög um stjórn vatnamála, nr. 36/2011, við í upptalningunni í 4. mgr. 5. gr. þar sem listuð eru ákvæði laga sem gilda ekki um undirbúning, töku og framkvæmd ákvörðunar. Nefndin telur þó brýnt að lög um stjórn vatnamála haldi gildi sínu, sér í lagi með tilliti til 17. gr. þeirra laga því lögskýringin með henni nær til óviðráðanlegra ytri atvika sem frumvarp þetta nær til. Þannig að við erum sem sagt ekki að gera breytingu á frumvarpinu hvað þetta varðar.

Hvað gildistökunnar varðar, 5. gr., þá segir:

„Meiri hluti nefndarinnar beinir því hins vegar til ráðherra að leitast við að tryggja að áhrif þeirra framkvæmda sem ráðast á í hafi sem minnst áhrif á umhverfi og náttúru. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði að lögum en ítrekar mikilvægi þess að við beitingu ákvæða frumvarpsins verði ekki gengið lengra en þörf krefur hverju sinni til að bregðast við tímabundnu ástandi á Reykjanesskaga til að ná markmiðum um vernd almannahagsmuna og mikilvægra samfélagslegra innviða.

Meiri hlutinn undirstrikar að þrátt fyrir að vikið sé frá stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, varðandi undirbúning, töku og framkvæmd ákvörðunar skv. 2. gr. frumvarpsins þá verði ekki vikið frá óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar. Líkt og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er áréttað að við framkvæmd ákvæða frumvarpsins beri ráðherra og öðrum stjórnvöldum „[…] að gæta að meðalhófi, jafnræði og öðrum stjórnsýslureglum eftir föngum, þrátt fyrir að ráðgert sé í frumvarpinu að ákvarðanir ráðherra sem teknar verða á grundvelli ákvæða þess séu undanskildar stjórnsýslulögum“. Meiri hlutinn leggur áherslu á að ráðherra gæti að framangreindum reglum við ákvörðunartöku. Í því felst m.a. að ráðherra gæti að hæfi sínu við ákvörðunartöku og leitist við að lágmarka áhrif á umhverfið. Þá telur meiri hlutinn rétt að allar ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna verði kynntar almenningi með tryggum hætti.“

Þá kem ég hér að breytingartillögunum sem liggja fyrir í nefndarálitinu og eru lítils háttar. Við gerum breytingartillögu við 1. mgr. 1. gr. þar sem meiri hlutinn „leggur til orðalagsbreytingu á 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins þannig að vísað verði til hugsanlegra afleiðinga eldsumbrota í stað hugsanlegra eldsumbrota. Breytingunni er ætlað að taka af tvímæli um að markmið laganna sé ekki einungis að verja innviði og almannahagsmuni þegar eldsumbrot eru hugsanleg heldur einnig þegar þau eru hafin.“

Við gerum einnig tillögu að breyttri framsetningu á gildistökuákvæðinu en um er að ræða tæknilega breytingu sem skýrir sig sjálf í nefndarálitinu sem fyrir liggur.

Undir þetta nefndarálit skrifa sú sem hér stendur ásamt hv. þingmönnum Birgi Þórarinssyni, Jódísi Skúladóttir, Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttir, Líneik Önnu Sævarsdóttur og Dagbjörtu Hákonardóttur.

Ég hef þá farið yfir helsta helstu niðurstöður í nefndaráliti meiri hlutans. Mig langar að nota tækifærið og þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir samstarfið í dag. Við höfum setið á fundi frá því að forsætisráðherra mælti fyrir þessu máli hér upp úr hádegi. Mig langar líka að þakka nefndarriturum okkar og góðum lögfræðingum og aðstoð sem við höfum fengið frá nefndasviði og Alþingi í dag og ekki síst langar mig að þakka gestum og umsagnaraðilum sem mættu til okkar með litlum fyrirvara.

Ég vona að þetta frumvarp fái hér framgang í dag og ég heyri ekki annað á þingmönnum sem eiga sæti í allsherjar- og menntamálanefnd en að það sé mikill einhugur um markmið og framgangs frumvarpsins þó að við kunnum að hafa einhverjar mismunandi skoðanir á einstaka greinum þess. Ég vona svo sannarlega að við náum í dag að afgreiða þetta sem lög frá Alþingi. Þau eru vissulega mikilvæg þótt þau séu örugglega ekki það eina sem við þurfum að taka hér fyrir, enda er váin mikil á þessu svæði og ljóst að við erum bæði að fjalla um það sem Grindvíkingar eru að horfa fram á en ekki síður erum við hér að koma í veg fyrir enn frekara tjón sem Reykjanesið allt og þjóðin öll gæti mögulega orðið fyrir.