154. löggjafarþing — 29. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[23:33]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Agi í ríkisfjármálum er mikilvægur. Agi í skattlagningu og álögum á borgarana er enn mikilvægari. Í 40. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum.“ Í greinargerð með frumvarpi til laga um opinber fjármál segir um 24. gr., sem heitir Almennur varasjóður, segir, með leyfi forseta:

„Tilgangur óskiptrar fjárheimildar hefur m.a. verið að mæta hækkunum launa og verðlags ásamt ófyrirséðum útgjöldum, þ.m.t. gengisbótum vegna veikari stöðu gjaldmiðilsins en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga, útgjöldum vegna eldgosa og náttúruhamfara …“

Samkvæmt þessu er augljóst að almenni varasjóðurinn er ætlaður — til hvers? Jú, til að mæta útgjöldum vegna eldgosa og náttúruhamfara. Það er mjög mikilvægt að við berum gæfu til þess að nota almenna varasjóðinn líkt og honum var ætlað í upphafi þegar lagaákvæði um almennan varasjóð var sett. — Ég segi já.