154. löggjafarþing — 29. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[23:36]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Viðreisn styður þessi lög sem eru hér til umræðu í dag og hugur okkar er með Grindvíkingum. Ljóst er að þeir atburðir sem þarna eru að eiga sér stað eru mjög umfangsmiklir og sérstakir í Íslandssögunni. Kostnaðurinn vegna þeirra mun verða umtalsverður. Það er víðtæk sátt um það í þessum sal að við ætlum sameiginlega að axla þær byrðar með Grindvíkingum að því marki sem fjárhagslegt tjón getur verið bætt. Við getum hins vegar ekki haft fyrirkomulagið þannig að í hvert einasta skipti sem við ætlum að rétta Grindvíkingum hjálparhönd, sem mun þurfa ítrekað á komandi mánuðum, þá semjum við um nýja skatta. Við hljótum að þurfa að taka þá umræðu út fyrir sviga. Fyrst ákveðum við að við stöndum með Grindvíkingum og síðan verður að taka um það sjálfstæða ákvörðun hvernig sá stuðningur verður fjármagnaður. Ég segi já.