154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

sjóður fyrir fólk í neyð.

[13:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin. Auðvitað studdum við heils hugar að það yrðu gerðir varnargarðar. Við vorum bara á móti þeirri gjaldheimtu sem þar var sett á.

En mig langar að fá svör við því hvað ég á að segja við allt það fólk sem hefur samband við mig og hefur ekki efni á að fara til tannlæknis, hefur ekki efni á að fara til sjúkraþjálfara, bara vegna þess að það er veikt eða fatlað, vegna þess að það hefur ekki fjármagnið til þess. Húsaleigan tekur allan þeirra pening. Þetta fólk er sárþjáð heima. Ég skil ekki hvers vegna í ósköpunum við getum verið með sjóði; ofanflóðasjóð, varasjóð, alls konar sjóði fyrir allt nema virkilega þessar þúsundir manna, eða hvað eigum við að segja, 5.000–10.000 manns sem eru í neyð, sem geta ekkert sótt. Hvað á ég að segja við einstakling sem spyr mig: Hvernig á ég að hafa efni á tannlækni af því að ég er búinn með allan minn pening í upphafi mánaðarins? Það er þetta sem vantar, að þetta fólk geti leitað eitthvert og fengið svör og hjálp.