154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

þróun varnargarða við Grindavík.

[13:49]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir hans spurningu. Eins og fram hefur komið var ráðist í það 2021 að kortleggja innviði á Reykjanesskaga. Það var í raun og veru fyrsta skrefið sem var tekið eftir að jarðhræringar hófust sem enduðu svo með eldgosi í Merardölum, sem mig minnir að hafi verið fyrsta gosið sem var það ár, 2021. Þá var ráðist í þessa kortlagningu innviða í sérstökum innviðahópi almannavarna til að ráða í það hvar væru möguleikar á að reisa slíka varnargarða.

Eins og hv. þingmann rekur kannski minni til voru reistir leiðigarðar í tengslum við þetta tiltekna eldgos og almannavarnir litu á það sem mjög mikilvæga aðgerð til þess að láta reyna á hvort slíkir garðar bæru árangur því að þeim tengist auðvitað mikil óvissa. Nú þori ég ekki alveg að fara með hvenær fyrir lá nákvæmlega frumhönnun á þessum tilteknu varnargörðum sem eru til umræðu núna í tengslum við orkuverið í Svartsengi. Ég ætla ekki að tímasetja það nákvæmlega svo ég fari ekki rangt með. Það lá líka fyrir að tillöguvaldið í þeim efnum er í höndum almannavarna og almannavarnir sendu tillögu að uppbyggingu slíks garðs sem er fjallað um í innviðaskýrslunni sem kom út 2022, ég man nú ekki, eins og ég segi, nákvæmlega hvenær hún kom. Tillaga almannavarna um það kemur á fimmtudagskvöld. Af því að hv. þingmaður spyr um tímalínu þá er málið tekið fyrir á föstudegi í ríkisstjórn og smíðað frumvarp sem dreift var á laugardegi og það var afgreitt hér á þinginu í gær á mánudegi og framkvæmdir hófust núna formlega fyrir klukkustund að ég tel.