154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

öflun grænnar orku.

[14:11]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hreinskilin svör og tek undir mikilvægi þess að forgangsraða orkunni okkar til heimila og meðalstórra fyrirtækja. En orkustefna sem samþykkt var þvert á flokka hér í þinginu segir að mæta eigi orkuþörf samfélagsins með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma. Jafn aðgangur verði á landsvísu að orku á samkeppnishæfu verði og við verðum alltaf með græna orku til heimila og fyrirtækja.

Þessi markmið eru metnaðarfull og góð en spurningunni um það hvernig við ætlum að afla þessarar grænu orku er enn ósvarað og ekki síður á hve löngum tíma við ætlum að afla hennar. Það er ljóst að á sama tíma og önnur lönd eru að greiða götu endurnýjanlegrar orkuvinnslu stefnum við í þveröfuga átt hér á landi. Leyfisveitingaferlið er langt og tímafrekt og tekur langan tíma eftir að virkjunarkostur verður hugmynd og þar til farið er að framkvæma, auk þess sem styrking flutningskerfis raforku þolir enga bið.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða aðgerðir ætlar ráðherra að ráðast í til að tryggja framboð grænnar orku fyrir heimilin í landinu, atvinnulífið og ekki síður orkuskiptin? Og einnig: Hefur hæstv. ráðherra kynnt sér áherslur og aðgerðir Evrópuríkja í tengslum við RePowerEU?