154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[14:35]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er verið að vinna með margar sviðsmyndir úti á Reykjanesi. Ein versta sviðsmyndin er sú að það gæti hugsanlega gosið á fleiri stöðum en einum. Ein versta sviðsmyndin er ef það kemur til sprengigoss í hafi. Það er líka hryllileg sviðsmynd ef kvika kemur upp í miðbæ Grindavíkur. Það er verið að horfa til allra þessara þátta og það er búið að grandskoða allar mögulegar sviðsmyndir, líka þær vondu. Það eru áætlanir komnar, m.a. frá Orkustofnun, um hvernig þarf að bregðast við ef við missum orkuverið í Svartsengi eða við þurfum að slökkva á orkuverinu í Svartsengi, því að sú sviðsmynd gæti raungerst. Það væri þá í tilviki sprengigoss sem þyrfti að slökkva á orkuverinu í Svartsengi. Við erum að fara inn í vetur og þá yrði allt Reykjanesið án heits vatns.