154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[14:53]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Já, það er rétt að þessi hugmynd hefur legið fyrir núna í einhvern tíma, alla vega tvö ár, að byggja varnargarð utan um einn af mikilvægustu innviðum Suðurnesja. Því hefur verið fleygt fram, sérstaklega á síðustu dögum: Af hverju í ósköpunum var ekki búið að byggja þennan varnargarð? Af hverju vorum við ekki búin að bregðast við? Það er auðvelt að vera vitur eftir á. Það hefur líka verið sagt við mig síðasta sólarhringinn: Bíddu, er ekki að slakna á spennu í Grindavík, þurfum við nokkuð að fara í þetta? Er þetta ekki bara rugl að vera að samþykkja þetta frumvarp hér með hraði á Alþingi, hættan er liðin hjá? Það er ákveðið sjónarmið sem ég tel algerlega óforsvaranlegt að taka tillit til þegar maður horfir á heildarhagsmunina sem þarna eru undir.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni að orkuóöryggi er ákveðið áhyggjuefni. Hér er búið að vera að tala um það í hátt í 20 ár að leggja Suðurnesjalínu 2 til að tryggja meiri og tryggari raforku inn á Suðurnesin. Það er að takast núna. Við verðum að tryggja raforkuna og við verðum að tryggja heita vatnið og við verðum líka að tryggja kalda vatnið. Orkufyrirtækið HS veitur hefur skilað inn ásamt HS Orku og Orkustofnun beiðni um að þeir fái að fara í það að bora fyrir köldu vatni og koma upp varavatnsbóli á Suðurnesjum sem er einnig mjög nauðsynleg aðgerð, svo ég fái nú að nefna eitthvað.