154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[15:12]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það verkefni sem við stöndum frammi fyrir er eiginlega stærra en hugur okkar getur náð yfir, hvort heldur er að verja innviði, halda utan um fjölskyldur og einstaklinga eða uppbygging og langtímaplan fyrir Grindvíkinga sem og öll önnur sem búa á Reykjanesi. Einn fjórði af Íslandi er á virku eldfjallasvæði. Það skiptir því gríðarlega miklu máli að við eigum öfluga vísindamenn, viðbragðsaðila sem og mikilvæga sjálfboðaliða. Þetta fólk hefur verið á vaktinni, ekki bara undanfarna daga heldur undanfarin ár og þau verða það áfram. Í auðmýkt þakka ég þeim öllum fyrir sín störf.

Við sem samfélag, stjórnmálafólk, hvort heldur er hér á Alþingi eða í sveitarstjórnum, þurfum öll að takast á við þessi verkefni, bæði með skjótu viðbragði við yfirstandandi ástandi en ekki síður til langs tíma, og endurskoða stöðu okkar hér á landi út frá þeirri þekkingu sem við höfum og framtíðarspám sem fyrir liggja. Til skemmri tíma verðum við að tryggja öryggi manna og málleysingja og vinna að lausnum við þeim bráðavanda sem heilt bæjarfélag stendur frammi fyrir — húsnæðismál, atvinnumál, skóla- og félagsmál. Við verðum að tryggja afkomu og öryggi fólks í Grindavík. Mikilvægt er að varðveita ráðningarsambönd atvinnurekenda við starfsfólk sitt á meðan óvissan er jafn mikil og hún er nú. Það er ótækt að afkomuáhyggjur bætist við byrðar fólks sem þegar glímir við kvíða og sorg vegna missis heimila og áhyggjur af líðan og skólagöngu barna sinna svo að eitthvað sé talið. Hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur sett af stað vinnu til að tryggja afkomu og öryggi fólks í Grindavík í góðu samtali við fjármálaráðherra og aðila vinnumarkaðarins. Horft verður til reynslunnar af úrræðum frá kórónuveirufaraldrinum og stefnt að því að viðkomandi atvinnurekendum sé auðveldað að greiða laun um næstu mánaðamót.

Virðulegi forseti. Að verja innviði til að tryggja öryggi 30.000 íbúa á Reykjanesi er ekkert smámál og þarf að vera í forgangi. Öll þjóðin hefur tekið sig saman á neyðarstundu og sýnt svo um munar að við stöndum saman og hvert með öðru þegar áföllin skella á. Þetta þekkjum við frá fyrri tíð, hvort heldur við horfum til Vestmannaeyja, Vestfjarða eða Seyðisfjarðar og fleiri staða þar sem við höfum svo sannarlega sem þjóð staðið með íbúum í skelfilegum aðstæðum og sýnt hvað í okkur býr. Núna ætlum við að gera þetta með smárri álögu á fasteignaeigendur, bæði einstaklinga og fyrirtæki, til að geta varið orkuver sem sér stórum hluta landsmanna fyrir rafmagni og heitu vatni. Mér finnst það afvegaleiða umræðuna að fjalla um þetta sem stórmál. Það hefur margoft komið fram að þetta eru litlar upphæðir á eignafólk sem ég og flestir sem ég hef talað við eru algerlega tilbúnir til að taka á sig og þótt betur væri að gert. Það hefur verið virkilega fallegt að fylgjast með umræðunni undanfarna daga. Alls staðar á landinu býður fólk fram aðstoð, allt frá því að taka að sér gæludýr, gefa leikföng og fatnað, bjóða húsnæði, bjóða fjármagn, ég get ekki einu sinni talið allt það upp sem ég hef lesið. Þetta lýsir vel þjóðarsál Íslendinga. Ég er stolt af því að tilheyra þessari þjóð.

Af því að ég talaði hér fyrst um bráðaviðbragð við yfirstandandi ógnvænlegum aðstæðum þá langar mig að nota þessar örfáu mínútur sem eftir eru til að ræða langtímahugsunina. Ég hef rætt það bæði í ræðu og riti að það er eitthvað stórkostlega skakkt í samfélagi þar sem 70–80% allra íbúa safnast saman á einn stað, óháð staðsetningunni. Við búum á eldfjallaeyju. Víða er skriðuhætta, það er snjóflóðahætta en við þurfum til framtíðar að dreifa meira úr okkur. Það verður ekki gert með hreppaflutningum heldur markvissri pólitískri ákvörðun um að gera fleiri staði á landinu svo eftirsóknarverða að fólk vilji þar búa. Þetta þurfa bæði stjórnvöld hér á þingi og sveitarstjórnir um land allt að vinna saman að.