154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[15:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra aftur fyrir þá munnlegu skýrslu sem hér var flutt en langar aðeins að reyna að taka saman þessi sjónarmið. Þau snerta kannski ekki öll beint á málaflokki dómsmálaráðherra en í ljósi þess að þetta er fyrsta munnlega skýrslan sem hér er flutt um ástandið á Reykjanesi í þessari atrennu þá er nauðsynlegt að ná smá samhengi í hlutina.

Frumvarpið sem var samþykkt hér í gær um uppbyggingu varnargarða var auðvitað sett hér í gegnum þingið í miklum flýti. Ég ætla að leyfa mér hér að halda til haga gagnrýni minni og fleiri í gær á það með hvaða hætti þessar framkvæmdir eru fjármagnaðar. Ég held að það sé ekki gott að senda þau skilaboð út í samfélagið að aðgerð sem þessi, sem sannarlega er bráðaaðgerð til að bjarga innviðum sem eru jafn mikilvægir og raunin er í Svartsengi fyrir Grindavík og Reykjanesið allt raunar, að það sé lagður til í flýti nýr sérstakur skattstofn. Þótt hann sé ekki hár þá er ólíklegt að hann haldist á þessum stað annars vegar og hins vegar að hann verði eins varanlegur og flaggað er í frumvarpinu miðað við hvernig um málið var rætt í allsherjar- og menntamálanefnd í gær og kom fram hér í þingræðu. Skatturinn leggst ekki á fyrr en um áramót þannig að það hefði verið hægur leikur að útfæra þetta með betur ígrunduðum hætti en raunin varð. Þegar við horfum á gjöld eins og gjaldtöku í ofanflóðasjóð, þar sem uppsöfnuð staða í árslok 2022 var, samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu í gær, 13,8 milljarðar, og það er fé, ef ég skil svar fjármálaráðuneytisins rétt, uppsafnað til þess tíma þar til mörkuðu tekjustofnarnir voru aflagðir. Þannig að innheimta á grundvelli þess gjalds og síðan samanborið við útlagðan kostnað til framkvæmda á grundvelli laga um ofanflóðasjóð er væntanlega töluvert mikið hærri en þessir tæpu 14 milljarðar segja til um.

Af hverju vil ég halda þessu til haga? Við erum gjörn á það hér, sérstaklega eftir að lögum um opinber fjármál var breytt, að það er bætt við nýjum tekjustofni sem er ætlaður til einhvers góðs þjóðþrifamáls, en svo er hann notaður að hluta til í eitthvað allt annað, almennan rekstur ríkissjóðs. Ég er hræddur um að þessi nýja gjaldtaka sem var samþykkt hér í gær verði því marki brennd þegar fram líða stundir.

En það er auðvitað nauðsynlegt að allar aðgerðir stjórnvalda miði að því að minnka óöryggi íbúa Grindavíkur eins mikið og nokkur kostur er við þær aðstæður sem nú eru uppi. Það þarf að tryggja að útskýringar og skilningur fólks á því með hvaða hætti tjón verður bætt, tímalína, hvað þarf að gera, hvað þarf að gerast og þar fram eftir götunum, liggi allt fyrir, því að því miður er staðan sú núna hjá þeim sem ekki geta mætt til vinnu sinnar vegna ástandsins að það er nægur tími til að hafa áhyggjur af stöðu mála og sannarlega tilefni til. Þannig að ég held að stjórnvöld ættu að leggja alla áherslu sína á að upplýsingagjöf sé hröð og góð og að þau tali um hlutina eins og þeir eru. Og varðandi það sem snýr að fjárhagslegum hagsmunum einstaklinga og fyrirtækja þá verði viðbrögð stjórnvalda þannig að það verði stillt af með þeim hætti að óvissan sé lágmörkuð í öllu tilliti. Við vonum auðvitað að þetta fari ekki samkvæmt verstu sviðsmyndum sem teiknaðar hafa verið upp, en fyrirtæki á svæðinu verða auðvitað að koma bærilega standandi út úr þessu til að það sé til einhvers að hverfa annars en skemmdra húsa þegar þessu ástandi lýkur, sem ég vona nú að verði sem allra fyrst.

En skilaboðin eru þessi: Ágætu stjórnvöld. Hafið skilaboðin skýr, leysið vandamálin sem koma upp og segið fólki, almenningi, hvernig þið ætlið að takast á við þau verkefni sem fram undan eru.