154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[15:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og ég vil þakka skýrslu hæstv. dómsmálaráðherra og hennar vasklegu framgöngu hér í þessu máli sem hefur reynst okkur öllum erfitt, sérstaklega Grindvíkingum. Ég þakka góða upplýsingagjöf til þingsins og okkar þingmanna um stöðu málsins. Það er náttúrlega ákaflega mikilvægt. Ég vil einnig nota tækifærið og þakka þeim öllum sem hafa komið að því að aðstoða Grindvíkinga við að yfirgefa bæjarfélagið sitt og sömuleiðis að sækja sína persónulegu eigur, lögreglu- og björgunarsveitum og öllum þeim sem hafa komið að því verkefni sem er ákaflega mikilvægt. Þetta eru mjög sérstakar aðstæður og erfitt að trúa því að þetta sé orðinn veruleikinn. Ég vil einnig þakka prestum á Reykjanesi og fleirum sem stóðu fyrir samverustund í Hallgrímskirkju sem var mjög vel sótt og það var vel til fundið. Þar mættu mjög margir Grindvíkingar og var mikill samhugur meðal fólks og ánægjulegt að sjá það.

Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er mjög stórt eins og við vitum. Það er mikið tjón í Grindavík en það er rétt að halda því til haga að eignir fólks eru tryggðar. Náttúruhamfaratrygging mun bæta það tjón sem fólk hefur orðið fyrir og auk þess eru veitukerfi tryggð og er mikilvægt að hafa það í huga. Hafist verður handa við að endurbyggja Grindavíkurbæ. Ég trúi því statt og stöðugt að það verði áfram blómleg byggð í Grindavík.

Auk þess vildi ég koma því á framfæri að þingflokkur Sjálfstæðismanna átti fund með jarðvísindamanni í morgun, Ara Trausta Guðmundssyni, fyrrverandi alþingismanni. Það var mjög fróðlegur fundur og gott að fá vísindamann til að funda sérstaklega með þingmönnum til að fara yfir stöðuna. Að sjálfsögðu er mikil óvissa og það er auðvitað afar slæmt að vita til þess að kvikugangur hafi myndast undir bæjarfélaginu en það er líka hægt að halda því til haga að þessi kvikugangur getur kólnað og storknað og ekki komið til eldsumbrota, sem við að sjálfsögðu vonum. Vonandi tekst bara að byggja blómlegt samfélag upp að nýju í Grindavík og lagfæra það sem hægt er að lagfæra og byggja síðan nýtt þar sem ekki er hægt að lagfæra.

Ég vil koma því á framfæri hér að það er afar mikilvægt, og hefur verið sagt hér í þessum sal, að þau fyrirtæki sem hafa bolmagn til, og það eru stöndug fyrirtæki í bæjarfélaginu Grindavík, styðji vel við sína starfsmenn sem geta ekki sótt vinnu af skiljanlegum ástæðum. Það er bara mikilvægt og ég vil hvetja fyrirtæki til að leita allra leiða til að fólk haldi sínum launum þar til við sjáum hvernig þetta þróast og vonandi að starfsemin geti hafist að nýju.

Ég vil fagna því að í gær samþykktum við lög um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi þar sem er komin skýr heimild til að fara í varnargarða. Þó að það sé ákveðin tilraun þá hafa þeir gefið góða raun, eins og í þessum eldgosum sem hafa verið í Geldingadölum, og það var hægt að fara í ákveðnar tilraunir þar sem betur fer og vísbendingar um að þeir skipti töluverðu máli. Þannig að ég fagna því að það sé komið í gang.

Aðeins í lokin, af því að það hefur verið minnst á þessa skattheimtu sem felst í þeim lögum sem voru samþykkt í gær, þá vil ég bara segja það að þetta er mjög óverulegur skattur. Þetta eru um 8.000 kr. á ári fyrir íbúðarhús sem er metið á 100 milljónir. Þannig að þeir sem búa í húsnæði sem er 60–70 millj. kr. virði borga kannski 6.000 kr. á ári. (Forseti hringir.) Mér finnst sá skattur bara vera samstaða með Grindvíkingum en að sjálfsögðu mikilvægur fyrir það sem fram undan er, en tjónið er gríðarlegt.

Að lokum, frú forseti, vil ég bara segja það, eins og ég sagði hér áðan, (Forseti hringir.) að ég vona að ekki komi til þess að við þurfum að horfa upp á frekari jarðhræringar á Reykjanesi og að þetta sé að líða undir lok.