154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Náttúrufræðistofnun.

479. mál
[17:08]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hélt að mér myndi duga að koma í stutt andsvar en ég má til með að koma aðeins aftur og vil aftur byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þetta frumvarp og mæla fyrir því. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við fjöllum um þessar breytingar hér á þingi og líka aðra möguleika eins og hafa komið fram hér í umræðunni. Verði þetta frumvarp að lögum mun Náttúrufræðistofnun Íslands verða Náttúrufræðistofnun og þar sameinast verkefni í nýrri stofnun sem nú eru hjá Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn, Landmælingum og Náttúrufræðistofnun Íslands. Verkefni þessarar stofnunar eru talin upp í 18 liðum og eru öll mikilvæg.

Mig langaði að koma aftur til að taka upp þráðinn þar sem andsvörum eða samtali hv. þm. Orra Páls Jóhannssonar og hæstv. ráðherra lauk. Það varðar mikilvægi utanumhalds á gögnum sem verða til hjá ólíkum fyrirtækjum og stofnunum og það eru kannski þau verkefni sem ég held að skipti mestu máli að rýna og jafnvel að athuga í meðförum þingsins, hvort það þurfi að skerpa eitthvað á orðalagi. Það er t.d. að fara með landupplýsingar, byggja ramma og grunna til að taka við öllum þeim náttúrufarsupplýsingum sem verða til í landinu. Og ekki bara að safna þeim saman í góða gagnagrunna eða góð landupplýsingakerfi heldur líka að hafa þau á því formi að það sé auðvelt að nálgast þau og nýta þau fyrir aðrar stofnanir, fyrir sveitarfélög, framkvæmdaraðila og einstaklinga.

Ég var á heilbrigðisþingi fyrr í dag þar sem verið var að tala um gagnadrifna heilbrigðisþjónustu. En það er akkúrat það, við eigum orðið töluvert af gögnum, okkur vantar auðvitað alltaf meiri upplýsingar, en það er svo mikilvægt að koma gögnunum sem við eigum nú þegar á það form að við getum nýtt þau. Þar sé ég alveg risastórt tækifæri fyrir þessa nýju stofnun að bæta mikið úr og einmitt að sækja gögnin, ekki bara frá þessum stofnunum heldur líka frá náttúrustofunum, sem lögin fjalla líka um, og svo frá fyrirtækjum eins og ÍSOR og veitufyrirtækjum og fleirum. Það má lengi halda áfram að ræða það. En það var þetta sem ég vildi leggja sérstaklega áherslu á hérna af því að ég komst ekki í það í andsvarinu.

Svo langar mig líka að taka upp punktinn sem hæstv. ráðherra kom inn á, þ.e. skort á náttúrufræðingum. Við erum reyndar svo heppin að það eru mjög margir erlendir náttúrufræðingar sem hafa áhuga á því að starfa á Íslandi, hvort sem þeir hafa menntað sig erlendis eða á Íslandi, þeir koma reyndar líka margir til að mennta sig hér. En við verðum að byggja betri grunn í náttúrufræðimenntuninni strax í grunnskólanum því að góður grunnur í náttúrufræði nýtist auðvitað á mörgum fleiri sviðum en hjá þeim sem verða náttúrufræðingar. En við þurfum líka að mennta fleiri náttúrufræðinga.

Síðan ætlaði ég að fara aðeins til baka og tala um samráð við heimamenn við Mývatn og Laxá sem hafa, sem betur fer, haldið mjög fast í samkomulagið um sérstaka rannsóknastöð sem starfi við Mývatn. Mig langar að grípa aðeins ofan í umsögn þeirra sem birtist í samráðsgátt, en þar segir:

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við frumvarpið að svo stöddu en vekur sérstaklega athygli á mikilvægi rannsókna á lífríki Mývatns og Laxár og nauðsyn þess að sambærileg starfsemi við það sem rannsóknastöðin hefur sinnt verði áfram í Mývatnssveit og sinni m.a. langtímavöktun á lífríki Mývatns og Laxár. Síðan áskilur sveitarstjórn sér rétt til að koma athugasemdum á framfæri á síðari stigum en tekur í rauninni mjög jákvætt í málið.

Ég held að það sé mikilvægt að halda þessu til haga því að eins og hæstv. ráðherra kom inn á þá hafa sambærileg mál stundum strandað í þinginu, m.a. vegna skorts á upplýsingum eða útfærslu á því hvað tæki við varðandi þessa starfsemi.

Þá langar mig að koma aðeins aftur að því sem ég sakna, af því að þessi lög fjalla í rauninni annars vegar um starfsemi Náttúrufræðistofnunar, sem fær umfangsmeira hlutverk verði þetta frumvarp að lögum, og svo hins vegar um starfsemi náttúrustofanna sem eru átta um land allt. Ég held að við þurfum að finna leið til þess að koma heitinu á náttúrustofunum inn í fyrirsögnina.

Svo legg ég og þingflokkur Framsóknar áherslu á að það verði farið sérstaklega yfir hvernig tryggja megi að áhersla á að fjölga störfum á landsbyggðinni gangi eftir, bæði störfum sem eru bundin við tilteknar starfsstöðvar og störfum með sveigjanlegum starfsstöðvum, kjörnum sem dreifast um landið. Ég tek undir það sem kom fram í svari hæstv. ráðherra áðan að það er ekki víða sem við höfum séð að það eigi sérstaklega að búa um þetta í lögum. En þess þá heldur held ég að sé mikilvægt fyrir nefndina að fara vel yfir þetta og ræða málið, jafnvel koma skilaboðum inn í það sem mikilvægt er að komi fram í reglugerðinni og eins að yfirfæra það þá á fleiri verkefni sem við erum að taka fyrir hér í þinginu. Núna starfa þessar stofnanir á fimm stöðum um landið og það verður spennandi að sjá hvernig þetta verður útfært í reglugerð.

En það sem mig langaði að bæta við er að það skiptir auðvitað máli þegar það eru starfsstöðvar að það sé ákveðinn fjöldi fólks til þess að búa til aðlaðandi vinnustað. Það er hægt að gera með því að það séu kannski tveir til fimm starfsmenn frá hverri stofnun eða í samvinnuhúsum, eins og við sjáum t.d. í Gíg í Mývatnssveit eða Múlanum á Norðfirði, þar sem koma saman starfsmenn frá ýmsum stofnunum og aðlaðandi vinnustaður og hugmyndapottur verður til. Ég held að þetta sé eitt af því sem þarf að huga að þarna.

Svo er líka mikilvægt að hugsa það þannig að þar sem það væri kannski æskilegt — við erum með tiltekið verkefni, segjum á Breiðdalsvík þar sem Borkjarnasafnið er, þar þurfum við kannski tvo, þrjá með ákveðna grunnþekkingu en það er bara hluti af starfseminni sem er bundinn staðnum og þá hugsum við hvernig hægt er að fylla upp í 100% starf með störfum sem skiptir ekki máli hvar eru í rauninni. Ég held að þetta geti verið mikilvæg nálgun þarna sem við þurfum að taka upp víðar.

Svo nefndi ég hér búsetu forstjóra. Ég held að það gæti verið æskilegt að skýra það hvort hún sé bundin annaðhvort einhverjum stað eða ákveðnum öðrum þáttum í starfseminni, það gæti verið, þannig að það sé ekki eitthvað sem kemur eftir á, eftir að forstjóri hefur mögulega verið ráðinn.

Auðvitað mætti lengi fjalla um innihaldið hérna en það er kannski mikilvægt — það er ekki verið að gera miklar efnislegar breytingar, í rauninni sáralitlar. Þetta er fyrst og fremst frumvarp um að sameina verkefni í einn lagabálk og kannski er skynsamlegt að hugsa ekkert út fyrir það. Samt gæti nefndin rekist á atriði sem væri æskilegt að breyta í meðförum sínum. En fyrst og fremst verður spennandi að sjá hvernig hv. umhverfis- og samgöngunefnd gengur með þetta mál og ég óska henni velfarnaðar í því verkefni.