154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands fyrir árin 2024--2028.

484. mál
[18:14]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsöguna. Það er þyngra en tárum taki að fylgjast með þeirri afturþróun sem hefur átt sér stað í þróunarríkjum. Eins og lýst er í tillögunni fer fátækt og ójöfnuður víða vaxandi og fjöldi fólks á flótta og vergangi hefur aldrei verið meiri en nú. Stöðuna má að hluta rekja til vaxandi óstöðugleika í heiminum en líka að hluta til ákvarðana sem vestræn ríki tóku í heimsfaraldri. Því miður virðist sem svo að öfugþróunin muni halda áfram. Þótt Ísland sé smáríki skiptir framlag okkar til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu máli. Við höfum góða sögu að segja frá vegferð okkar til velsældar með aðstoð alþjóðasamfélagsins. Sérþekking okkar til að mynda á sviði jarðhitamála og jafnréttis getur sömuleiðis nýst þróunarríkjum heimsins og því er mikilvægt hvernig við verjum og forgangsröðum framlagi okkar til þróunarsamvinnu. Það er því ánægjulegt að sjá áherslu á sérþekkingu Íslands við úrlausn þróunarverkefna í tillögunni. Það er sömuleiðis jákvætt að eftir þessu sé tekið, m.a. af þróunarsamvinnunefnd OECD, DAC, sem benti nýlega á að stefna Íslands í þróunarsamvinnu hafi stuðlað að hámörkun áhrifa af framlögum Íslands þrátt fyrir smæð okkar. Þá er ánægjulegt að sjá áframhaldandi framgang mannréttindamiðaðrar þróunarsamvinnu, enda á þróunarsamvinna Íslands að endurspegla gildi okkar; virðingu fyrir lýðræði, mannréttindum, fjölbreytileika, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu eins og segir í tillögunni.

Ég tek því undir sértæk og þverlæg áhersluatriði stefnunnar; mannréttindi, jafnrétti kynjanna og umhverfis- og loftslagsmál. Sem herlaus, friðsæl þjóð er framlag okkar til mannúðaraðstoðar og störf í þágu stöðugleika og friðar bæði þörf og mikilvæg. Það er jákvætt að lögð sé áhersla á það í tillögunni að Ísland beiti sér í þágu lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis, enda hefur Ísland gríðarlega hagsmuni af auknum stöðugleika og af því að bæta þessa þætti á heimsvísu. Það er mikilvægt að Ísland haldi áfram að nýta fjölbreyttar leiðir við að framkvæma þróunarsamvinnu. Í þeim efnum vil ég nefna sérstaklega samstarf við íslenskt atvinnulíf en utanríkisráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt aukna áherslu á aðkomu þess við framkvæmd þróunarsamvinnu. Það er líka í samræmi við hávært ákall þróunarríkja sem hafa lagt áherslu á viðskipti en ekki einungis aðstoð, með leyfi forseta: Trade not Aid. Með þátttöku í þróunarsamvinnu axlar atvinnulífið samfélagslega ábyrgð og leggur sitt af mörkum en auk þess eru gríðarlega mörg vannýtt tækifæri fyrir atvinnulífið í þróunarríkjum.

Mig langar að fagna því sérstaklega að Síerra Leóne komi til viðbótar tvíhliða samstarfsríkjum okkar í þróunarsamvinnu. Ég hef séð það með eigin augum hversu mikið okkar sérþekking og reynsla hefur nýst og getur nýst enn betur þessu sárafátæka ríki. Þar er mikið verk að vinna, m.a. við að vinna gegn umskurði kvenna sem er einna útbreiddastur þar, eins hræðilegt og það nú er. Þegar ég fór einhverju sinni til Síerra Leóne í samfloti með samstarfsfólki úr utanríkisráðuneytinu þá hittum við m.a. fórnarlömb niður í allt að sex ára gömul sem voru örkumla fyrir lífstíð vegna þessara hræðilegu umskurðaraðgerða.

Við höfum vandað valið vel við samstarf okkar við stofnanir í þróunarsamvinnu, ekki síst til að reyna að tryggja að framlög Íslands renni þangað sem til er ætlast. Það getur verið áskorun að sjá til þess í þróunarríkjum heimsins sem búa sannarlega ekki við sömu starfshætti og gagnsæi og við og þar sem spilling er víða útbreitt og viðvarandi vandamál. Það er gríðarlega mikilvægt að við höfum virkt eftirlit með þessu og, vegna smæðar okkar og takmarkaðra úrræða, þá líka eftirlit með eftirlitinu.

Í dag fjallaði Morgunblaðið um eftirlit með þróunarsamvinnufé og umræður um það, m.a. á vettvangi ESB. Við þurfum að leita allra leiða til að þróunarsamvinnufé Íslands nýtist á þann hátt sem til er ætlast og að ekki sé misfarið með það. Íslensk stjórnvöld hafa ríka upplýsingaskyldu gagnvart Íslendingum um hvernig skattfé er varið og það á við um þróunarsamvinnuframlög eins og annað, hversu viðkvæmt sem fólk kann að vera fyrir umræðuefninu. Það er mikilvægt að árangur verði áfram hafður að leiðarljósi í þróunarsamvinnu Íslands og því jákvætt að það sé margítrekað í tillögu þessari að árangur verði settur í forgang í allri þróunarsamvinnu Íslands.