154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands fyrir árin 2024--2028.

484. mál
[18:23]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Þetta er að mörgu leyti góð stefnumörkun, ítarleg, með skýrri markmiðssetningu, skipt niður í áherslusvið og rík áhersla lögð á að árangursmeta. Það skiptir máli að meta hver árangurinn er og að þessir fjármunir nýtist vel. Þróunarsamvinna byggist á ýmsum gildum, byggist á þeirri hugsun að við séum öll eitt mannkyn, allar þjóðir séu í þessu saman og að vel stæðar þjóðir hafi ákveðnar skyldur til að leggja sitt af mörkum. Þess vegna fannst mér gott hjá hæstv. ráðherra að halda því til haga að við Íslendingar vorum einu sinni í þeirri stöðu að þiggja þróunaraðstoð og í hinu stærra samhengi sögunnar er ekkert svo rosalega langt síðan. Nú erum við hins vegar í þeirri stöðu að geta lagt okkar af mörkum og er bara mjög jákvætt og í raun sjálfsagt að gera það. Þetta byggist náttúrlega ekki bara á góðmennsku og gjafmildi heldur líka ákveðnum praktískum þankagangi, það að stuðla að stöðugleika og friði í heiminum og að stuðla að því að réttindi fólks séu virt og að fólk fari t.d. ekki á vergang að óþörfu hefur jákvæð áhrif á alla heimsbyggðina. Þetta hefur skilað sér alveg pottþétt að einhverju leyti til baka í því formi að við búum við betri heim sem kemur okkur öllum til góða, skapar t.d. farsæld og hagvöxt annars staðar sem við getum notið góðs af þannig að það er bara jákvætt að reyna að lyfta öllum upp.

Að þessu sögðu þá er alltaf hægt að tala um tölur og það hefur verið nefnt mjög oft í þessu samhengi af mörgum að við Íslendingar, í samanburði við aðrar þjóðir, t.d. Norðurlandaþjóðir, leggjum ekki jafn mikið og aðrir í þróunaraðstoð. Þó að það sé sagt þarna í stefnumörkuninni að Ísland styðji það markmið sem Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt upp með, að þróuð iðnríki leggi 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunaraðstoðar, þá er nú samkvæmt því plani sem þarna er lagt upp með frekar langt í land. Það er sagt að ef svo fer fram sem horfir munum við ná þessu 2035 þannig að maður veltir fyrir sér hvort ekki sé hægt að setja aðeins aukinn metnað í þetta.

Ég sakna líka svolítið, þó að það geti kannski verið vandasamt að fara í það ítarlega, beinnar tengingar milli markmiða og fjármagns, hvernig nákvæmlega það fjármagn sem verið er að leggja fram nægir til að ná þeim markmiðum sem eru sett upp.

Svo er annar þáttur í þessu sem hefur verið bent á, það er sú staðreynd að hluti þessa kostnaðar sem talinn er þarna upp til þróunaraðstoðar er móttaka hælisleitenda og flóttafólks. Líkt og þarna er bent á í skjalinu er þetta mjög heiðarlegt svar hvað varðar öll atriði, m.a. samanburð við önnur ríki í kostnaði, og varðandi það á hvaða forsendum þessi kostnaður við móttöku hælisleitenda er talinn með þessum hætti. Það er einfaldlega leyfilegt samkvæmt viðmiðum þróunarsamvinnunefndar OECD, þ.e. DAC, að telja þetta með. En ég kemst hins vegar ekki hjá því að velta fyrir mér hvernig það samræmist í raun og veru markmiðum um þróunaraðstoð sem snýst um að aðstoða ríkin sjálf og fólkið í ríkjunum við að vinna að markmiðum innan ríkisins sem þarna eru talin upp; mannréttindi, jafnrétti, mannauður, vinnan gegn loftslagsvá og svo auðvitað að vinna að stöðugleika og friði. Það er mikið neyðarúrræði fyrir fólk að flýja landið og fara til annars lands og vera gestir þar sem flóttafólk og það í sjálfu sér er ekki að hjálpa viðkomandi ríki að vinna í sínum málum. Það er í rauninni bara til marks um að ríkið sé illa statt þegar fólk leitar annarra tækifæra annars staðar.

Ég velti líka fyrir mér hvort það sé í raun rétt að telja þetta sem þróunaraðstoðarkostnað í ljósi þess að þetta er ekki hreinn kostnaður bara hjá okkur. Þó að oft sé talað um flóttafólk sem kostnað þá er í því mannauður. Þetta er mjög oft, bara eins og aðrir innflytjendur, fólk sem kemur undir sig fótunum hér og fer í vinnu eða nám, elur upp börn og verður hluti af mannauðinum.

Þetta eru þau tvö atriði sem ég vildi helst velta fyrir mér, þ.e. heildarkostnaðurinn sem er gömul tugga sem kannski einhver verður að segja, og svo þetta atriði að telja kostnað við hælisleitendur með. Eins og margoft hefur verið rætt hefur það líka farið vaxandi hérlendis og þá fer það mögulega að skekkja erlendan samanburð ef hann er meiri hér en annars staðar. Það væri kannski ágætt að hafa aðeins meira gagnsæi í því hvernig þessi kostnaður skiptist, þá er þetta kannski samanburðarhæfara milli landa og eins mætti skerpa á þessu betur í stefnumörkuninni. Mér finnst það svolítið nefnt í framhjáhlaupi að kostnaður við hælisleitendur sé talinn þarna með. Ég sé ekki að það sé lagt upp sem sérstakt markmið.