154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Málefni fatlaðs fólks.

[15:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fatlað fólk er ítrekað beitt ofbeldi og því miður virðist réttarkerfið okkar ekki ráða við það ofbeldi og það verður að breytast strax. Í fréttum RÚV í janúar 2023 kemur fram orðrétt, með leyfi forseta:

„79 ofbeldisbrotamál eru á borði réttindagæslumanns fatlaðs fólks eftir árið 2022. Þar af er 31 kynferðisbrotamál, 19 mál í tengslum við líkamlegt ofbeldi, 11 svokölluð almenn mál, 10 mál vegna fjárhagslegs ofbeldis og 8 mál vegna nauðungar.“

Þá kom það fram að málin eru talin mun fleiri. Ofbeldi gagnvart fötluðu fólki er því miður fjölbreytt. Til dæmis var fatlaður einstaklingur í hjólastól og fjölskylda hans borin út úr íbúð hans vegna 3 millj. kr. húsnæðisgjalda. Íbúð hans sem var metin á 57 milljónir var seld á nauðungaruppboði á 3 millj. kr. í boði sýslumanns. Tugmilljóna króna bætur hans eru nú gróði annars manns vegna klúðurs í stjórnsýslunni. Fatlaður maður fær 120 kr. á tímann í vinnu eða 4.197 kr. fyrir 35 klukkustunda vinnu í mánuði, 2.762 kr. eftir skatt. Það er ekkert annað en vinnuþrælkun og gróft fjárhagslegt ofbeldi af verstu gerð.

Okkur hér á Alþingi ber að tryggja fjárhagslega stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu, hvort sem það er í vinnu, hlutavinnu eða ekki í vinnu, og tryggja þeim full og óskert mannréttindi og hvað þá jafnrétti. Þá ber okkur einnig að tryggja það að fatlað fólk búi við mannsæmandi aðstæður í formi fæðis, klæðis og húsnæðis og þá einnig í félags- og tómstundamálum.

Það er búið að kortleggja vel og vandlega málefni fatlaðs fólks á Íslandi og á Norðurlöndunum með fjölda greinargerða og skýrslna. Í guðanna bænum gerum ekki fleiri kostnaðarsamar skýrslur um þarfir fatlaðs fólks. Hættum að mestu þessum skýrslugerðum og notfærum okkur strax allar þessar kostnaðarsömu skýrslur, skýrslur með fjöldann allan af tölfræðilegum upplýsingum sem skýra út með fjölda línurita, súlurita og kökurita hvað þarf nauðsynlega að gera strax til að tryggja full mannréttindi fatlaðs fólks. Það er kominn tími til að ríkisstjórnin hætti strax að hækjast áfram með því að draga lappirnar með endalausum skýrslum og greinargerðum um það hvernig eigi að koma málefnum fatlaðs fólks í löglegt og mannsæmandi horf heldur hysji upp um sig buxurnar, bretti upp buxnaskálmarnar og komi strax skikkan á málefni fatlaðs fólks.

Það að tryggja mannréttindi og styðja við málefni barna og ungs fólks með fötlun á ekki að vera vandamál, hvað þá að virða óskir þeirra og þarfir. Það ber að hafa þau með í ákvarðanatöku fullorðinna og sjá til þess að sterk rödd þeirra um eigin málefni heyrist hátt og skýrt.

Stefna í málefnum fatlaðs fólks á að felast í að byggja upp sjálfbært samfélag þar sem enginn er skilinn út undan, sjá til þess að markmið um inngildingu fatlaðs fólks á öllum sviðum samfélagsins séu virt. Að við séum með nær 200 fatlaða einstaklinga á hjúkrunarheimili og það stóran hóp nauðugan er og verður okkur hér á Alþingi til ævarandi skammar. Í því samhengi þá efast ég ekki um að við öll hér á Alþingi erum sammála um það að fatlað fólk á ekki að vista á stofnun án samþykkis þess og það eigi að hafa rétt á að velja sér sinn samastað sjálft.

Þegar málefnið varðar fötluð börn og fjölskyldur þeirra skal einnig framfylgja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna lögum samkvæmt til að tryggja lagaleg réttindi þeirra.

Í nútímasamfélagi verður að nota stafrænar lausnir fyrir fatlað fólk í þeim tilgangi að brjóta niður allar hindranir í samfélaginu og þá einnig allar krísur sem finnast í stjórnsýslu og atvinnulífinu sem hindra leið fatlaðs fólks inn í framtíðina. Kostnaður við málefni fatlaðs fólks er að sliga sveitarfélögin, var fyrirsögn í fréttum nýlega. Er fatlað fólk kostnaður í þeirra augum? Fatlað fólk er ekki kostnaður og þá alls ekki þegar kostnaðurinn sem þau tala um er vegna ótrúlegs klúðurs sem orðið hefur í málefnum fatlaðs fólks í meðferð sveitarfélaganna sjálfra og ríkisins. Ef ríki og sveitarfélög geta ekki reiknað rétt í málefnum fatlaðs fólks er það vangetu þeirra um að kenna og kemur fötluðu fólki ekkert við og það er þeim til ævarandi skammar að reyna að klína eigin vangetu upp á fatlað fólk.

Þá skulu stjórnvöld tryggja að fatlað fólk og þar með hagsmunir þess hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þess. Einkum á það við um 19. gr. samningsins sem fjallar um réttinn til sjálfstæðs lífs og þátttöku í samfélaginu. Fatlað fólk upplifir aðrar og fleiri stjórnsýsluhindranir en ófatlað fólk þegar það ferðast innan lands eða flytur milli norrænu landanna.

Þá að lokum: Látum það ekki raungerast að eftir 50–100 ár verði gerð rannsóknarskýrsla um stöðu fatlaðs fólks í dag og þar verður fjallað um klúður okkar hér á Alþingi í málefnum fatlaðs fólks með tilheyrandi greiðslum sanngirnisbóta vegna þess. Erum við ekki öll sammála því að við verðum að muna og virða kjörorð þeirra sem búa við fötlun, sem er: Ekkert um okkur án okkar?