154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Málefni fatlaðs fólks.

[15:46]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að taka málefni fatlaðs fólks til sérstakrar umræðu hér á Alþingi. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur sannarlega sett málefni fatlaðs fólks í fyrirrúm á þessu kjörtímabili. Ég tel mikilvægt að við búum í samfélagi þar sem enginn er skilinn út undan. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru meðal þeirra alþjóðlegu samninga og viðmiða sem eru leiðarljós okkar við inngildingu fatlaðs fólks í samfélagið. Þess vegna er mikilvægt að í ríkisstjórnarsáttmálanum er kveðið á um að lögfesta skuli samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á þessu kjörtímabili og fer undirbúningur þeirrar vinnu nú fram í forsætisráðuneytinu, en mikilvægur undanfari þess er að koma á fót óháðri mannréttindastofnun og mælti forsætisráðherra fyrir frumvarpi þess efnis á Alþingi í október síðastliðnum.

Annar mikilvægur þáttur í baráttu okkar fyrir inngildingu fatlaðs fólks í samfélagið er gerð landsáætlunar sem inniheldur aðgerðir sem eiga að tryggja framkvæmd samningsins hérlendis. Drög að áætluninni eru nú í samráðsgátt stjórnvalda og hafa verið unnin í víðtækri samvinnu fjölmargra aðila í samfélaginu og sérstaklega með ríkri þátttöku fatlaðs fólks. Þá hefur sérstakur vinnuhópur um mennta- og atvinnutækifæri fatlaðs fólks verið að störfum undir stjórn Söru Daggar Svanhildardóttur. Ríkisstjórn Íslands er því á fullri ferð að vinna að lögfestingu samningsins, viðauka hans og framkvæmd hérlendis. Ég hlakka til áframhaldandi samvinnu við Alþingi og hv. alþingismenn á þeirri vegferð.

Virðulegi forseti. Í ríkisstjórnarsáttmálanum kemur fram að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu, sem skiptir miklu máli varðandi framfærslu fatlaðs fólks. Þegar hafa ákveðin skref verið stigin og vil ég þar sérstaklega nefna að frítekjumörk vegna atvinnutekna voru hækkuð í upphafi þessa árs úr 110.000 kr. í 200.000 kr. á mánuði, en um er að ræða fyrstu hækkun á frítekjumarkinu frá árinu 2009 eða í tæp 14 ár. Þá hefur tímabil endurhæfingarlífeyris verið lengt úr þremur árum í fimm sem sérstaklega er hugsað til þess að mæta ungu fólki sem á við geðrænar áskoranir að stríða. Í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu stendur síðan yfir frekari vinna núna við endurskoðun kerfisins þar sem sérstaklega er horft til þess að bæta afkomu og möguleika til virkni og atvinnuþátttöku fatlaðs fólks á eigin forsendum. Þá er það einnig markmiðið að einstaklingum sem missa starfsgetuna verði í auknum mæli tryggð þjónusta og stuðningur strax á fyrstu stigum veikinda eða áfalls og að framfærsla sé tryggð meðan á endurhæfingu stendur, en það er eitt af þeim atriðum sem sérstaklega hefur verið bent á að þurfi að laga. Samhliða þessu er unnið að frekari möguleikum fatlaðs fólks og fólks með mismikla starfsgetu til aukinnar atvinnuþátttöku. Að síðustu er það markmið breytinganna að beina fjármagni í auknum mæli til þeirra sem reiða sig eingöngu á almannatryggingar eða eru með litlar aðrar tekjur en frá ríkinu. Við þekkjum það að í fjármálaáætluninni síðustu eru um 15–16 milljarðar settir í þetta frá og með 2025. Ég tel að þessar breytingar séu mjög brýnar og mikilvægar og muni verða þær stærstu í langan tíma sem draga úr fátækt og auka lífsgæði fatlaðs fólks og fólks með mismikla starfsgetu á Íslandi.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom sérstaklega inn á búsetu og ef við horfum til hennar þá kveður 19. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á um að tryggja skuli að fatlað fólk hafi tækifæri til að velja sér búsetustað líkt og annað fólk. Þetta eru mikilvæg réttindi sem samningurinn tryggir fötluðu fólki og unnið er samkvæmt hérlendis, samanber bráðabirgðaákvæði II í lögum um fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Ég vek sérstaklega athygli á því að í drögum að landsáætlun um innleiðingu samningsins, sem nú er í samráðsgátt stjórnvalda, er lögð til aðgerð sem felur í sér að framkvæmt verði mat á þjónustuþörfum og vilja hvers einstaklings sem í dag býr gegn vilja sínum á sambýli eða hjúkrunarheimili. Í kjölfarið verði gefnar út leiðbeiningar til sveitarfélaga um gerð tímasettra áætlana um uppbyggingu fjölbreyttra húsnæðis- og þjónustuúrræða, en aðeins eitt sveitarfélag hafði slíka áætlun við síðustu úttekt. Enn fremur skipaði heilbrigðisráðherra fyrr á þessu ári starfshóp sem hefur það verkefni að gera tillögur á grundvelli kortlagningar á stöðu og þörfum einstaklinga á aldrinum 18–60 ára sem dveljast á hjúkrunarheimilum. Þessar aðgerðir ásamt mörgum öðrum munu auka valfrelsi fatlaðs fólks þegar kemur að búsetu.