154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Málefni fatlaðs fólks.

[16:12]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram í dag og er að frumkvæði hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar. Ég dáist að dugnaði hans og elju við að halda málefnum fatlaðra einstaklinga á lofti. Þann tíma sem við höfum verið hérna saman á þinginu hefur enginn þingmaður barist af jafn mikilli hörku og dugnaði og vilja fyrir þessum málstað og hann. Það er kannski ástæðan fyrir því að trúlega hef ég sjálfur ekki flutt fleiri ræður um nokkurt málefni í þessum sal en einmitt málefni fatlaðra einstaklinga og hef tekið þátt í starfi velferðarnefndar allan tímann. Ég verð bara að segja það að þrátt fyrir allt, og þrátt fyrir það að við getum verið óánægð — hér koma ágætar tillögur um nám fatlaðra sem ég tek undir alveg heils hugar — þá hefur margt áunnist. Það er margt sem hefur verið mjög vel gert. En við erum líka á mörgum stöðum aftarlega á merinni. Við höfum verið að innleiða NPA-þjónustu hingað til Íslands að erlendri fyrirmynd og auðvitað var það stórkostlegt skref fram á við. En það hafa því miður ekki allir sem á því þurfa að halda fengið þá þjónustu og jafnvel þeir sem hafa fengið NPA-samninga hafa sumir hverjir ekki fengið þannig samninga að þeir dugi hreinlega fyrir því sem verkefnið er, að koma þeim út af stofnununum og inn á heimili sitt þannig að þeir geti verið þar með sinni fjölskyldu og fengið aðstoð til þess.

Ég tek undir að hér hefur margt verið gott gert, frítekjumark fært upp í 200.000 kr., sem er gríðarlega mikill ávinningur fyrir fatlaða einstaklinga, hámark 25% í leigu og ýmsir aðrir hlutir sem við erum sammála um að við þurfum að halda áfram að bæta. Ég mun leggja mitt af mörkum til þess og halda áfram að styðja þennan góða þingmann sem er ötull talsmaður þessa málaflokks.