154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Málefni fatlaðs fólks.

[16:14]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Hæstv. forseti. Nauðung er ekki nauðsynlegt úrræði í heilbrigðisþjónustu við fólk með geðfötlun. Nauðung er raunar ekki úrræði heldur úrræðaleysi. Sú afstaða að þvingun í geðheilbrigðisþjónustu sé úrræði byggir á úreltum viðhorfum og menningu og það þrátt fyrir nýja þekkingu. Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á gagnsemi valdbeitingar í læknisþjónustu við geðfatlað fólk, þvert á móti.

Forseti. Beiting nauðungar er ekki úrræði heldur úrræðaleysi. Við þurfum hins vegar ekkert að finna upp hjólið. Úrræðin eru til, þ.e. við vitum hvað annað væri hægt að gera. Þau úrræði lúta fyrst og fremst að hugarfarsbreytingu en einnig að því að tryggja aðstæður til veitingar geðheilbrigðisþjónustu og inngripa á fyrri stigum þannig að ekki þurfi að koma til nauðungar.

Á meðal þeirra skrefa sem Evrópuráðsþingið hefur lagt til að ríki taki til að binda endi á notkun þvingunarúrræða — ekki takmarka þau, ekki minnka heldur binda endi á — eru m.a. að þróa framtíðarsýn um róttæka fækkun tilfella þar sem nauðung er beitt, að þróa áhrifaríka og aðgengilega stuðningsþjónustu við einstaklinga sem eiga við andlega erfiðleika að stríða eða sýna fyrstu einkenni geðraskana, að setja fjármagn í forvarnir og snemmtæka greiningu geðraskana og snemmtæk úrræði án þvingunar, sér í lagi fyrir börn og ungt fólk, án fordóma, að berjast gegn staðalímyndum um fólk með geðraskanir og rangri narratífu um ofbeldi og fólk með geðraskanir með vitundarvakningu og þátttöku allra sem hafa aðkomu að slíkum málum, þ.m.t. þjónustuveitendum, fjölmiðlum, löggæslu og almennings til viðbótar við fólkið sjálft sem glímir við geðraskanir, og að berjast gegn útilokun og útskúfun fólks með geðraskanir með því að tryggja aðgang að félagslegri þjónustu, húsnæði og atvinnu.

Ég hvet hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina alla (Forseti hringir.) til að líta til framtíðar í þeirri vinnu sem nefnd hefur verið hér í dag. (Forseti hringir.) Ég hvet hann til að tryggja að ný og endurbætt úrræði séu í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum undirgengist.