154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Málefni fatlaðs fólks.

[16:24]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir mjög góðar umræður hér í dag og svo koma inn á nokkur atriði. Í fyrsta lagi er það lögfesting samningsins. Hún er á dagskrá ríkisstjórnarinnar, og er þetta í fyrsta skipti sem það kemur inn í stjórnarsáttmála svo ég viti til, þannig að það er unnið að því verkefni. Það er mikilvægt en það er líka mikilvægt að gera það vel. Það er mikilvægt að fara í gegnum löggjöfina. Það er mikilvægt að þetta verði unnið faglega en ekki flausturslega. Við erum samhliða þessu að vinna að fjölmörgum málum. Þar nefni ég mannréttindastofnunina sem hingað er komin inn, landsáætlun til að framkvæma samninginn á Íslandi en þar fáum við áætlun af því að við viljum vinna skipulega að málum sem byggja á greiningu, endurskoðun örorkulífeyriskerfisins, sem m.a. tekur á bútasaumnum sem hv. þingmaður nefndi hér áðan, og varðandi mennta- og atvinnutækifæri fatlaðs fólks sem sérstakur starfshópur er að vinna að. Þar mun koma skýrsla sem mun vera með tillögum sem byggja einmitt á greiningum, sem er jákvætt.

Hér var komið inn á kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þar var sett inn upphæð á þessu ári, 5 milljarðar. Við erum að loka þessu með sveitarfélögunum en það er alveg ljóst að sveitarfélögin bera líka ábyrgð hér og því megum við ekki gleyma.

Hér var komið inn á NPA-samninga. Þar hefur kostnaðurinn hækkað mjög mikið á undanförnum árum og áætlanir hafa því einfaldlega riðlast, það er alveg hárrétt sem þingmenn hafa bent á. Þess vegna framlengdum við bráðabirgðaákvæði laganna um síðustu áramót í samstarfi við sveitarfélögin og svona mætti lengi telja.

Varðandi nauðung langar mig að nefna að í drögum að aðgerðaáætlun eða landsáætlun eru einmitt aðgerðir þar að lútandi. En mig langar að segja að margt af því sem hér hefur verið rætt, og kannski allt, er einmitt inni í þessum drögum að landsáætlun og hún hefur líka verið unnin með og leidd af fötluðu fólki að hluta til.

Mig langar að lokum að segja að sem betur fer hafa réttindi og þjónusta á undanförnum árum og áratugum farið batnandi, eins og NPA-málin sýna og eru skýrt dæmi um að okkur hefur farið fram. Við þurfum samt að gera betur og um það erum við öll sammála, (Forseti hringir.) hv. þingmenn, kannski ekki síst þegar kemur að, eða mig langar að nefna það sem dæmi, (Forseti hringir.) aðgengi að menntun og atvinnu. Það eru samt of miklir fordómar enn þá í samfélaginu gagnvart fötluðu fólki. Okkur er ekki illa við fatlað fólk (Forseti hringir.) en við teljum það kannski geta minna en það getur. Við getum gert betur en það (Forseti hringir.) og ég hlakka til að fá hv. þingmenn í þá vegferð sem er þegar hafin undir minni stjórn.