154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:48]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann talaði um að við þyrftum að koma okkur upp einfaldari strúktúr og að flækjustig í okkar litla samfélagi sé of mikið, sem er mjög áhugavert. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig má einfalda það? Væri kominn tími til að fækka ráðherrum, leggja niður embætti forseta Íslands, láta bara einn ráðherra sitja í forsæti eins og fjármálaráðherra og fækka í yfirstjórn samfélagsins? Hvar vill hann einfalda strúktúrinn og hvar vill hann minnka flækjustigið? Það er spurningin.

Mig langar einnig að spyrja um vöxt ferðaþjónustunnar. Ég kom upp í andsvör um breytingar á gjöldum þar, m.a. gistináttaskattinn sem er 300 kr. á einstakling, dvalargest. Hann talar um að það sé óheftur vöxtur og þá er önnur spurningin þessi: Hvernig á að koma böndum á þennan vöxt? Er það ekki bara gert með skattlagningu? Hann talar líka um að þessi atvinnugrein sé niðurgreidd. Hvernig vill hann breyta því? Er það ekki gert bara með því að hækka virðisaukaskattsstigið og taka kannski upp gistináttagjald sem væri hærra og þá kannski miðað við prósentu? Sá sem gistir í tjaldi á að greiða 300 kr. fyrir nóttina og sá sem gistir á fimm stjörnu hóteli á líka að borga 300 kr., þannig að skattalega séð skiptir engu máli hvort það komi ferðamaður á fimm stjörnu hótel eða á tjaldstæði, þ.e. fyrir ríkissjóð. Þetta fer ekki til sveitarfélaganna. Það væri gaman að heyra um það. En ég vil taka fram, svo við höfum nú alla fyrirvara á sem þarf oft að gera, að mér finnst vöxtur ferðaþjónustunnar stórkostlegur og þetta er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein og við eigum að leyfa henni að dafna. En hún á líka að borga sitt til samfélagsins. Hún er gríðarlega mikilvæg fyrir landsbyggðina. Sveitarfélögin eiga að fá sinn hluta þar.