154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:57]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta langa ræðu hér en mig langar að koma inn á nokkur atriði sem ég tel skipta máli. Það er í fyrsta lagi að frumvarp til fjáraukalaga er til þess að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins enda hafi ekki verið brugðist við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum um opinber fjármál. Þetta eru lög sem eru raunverulega hálfgerð uppgjörslög á árinu og líka varðandi útgjöld sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlögum þessa árs, sem nú er komið ansi langt á veg, einn og hálfur mánuður eftir.

Í frumvarpinu kemur fram, og það er mjög áhugavert, að í svokölluðum almenna varasjóði, þar sem eru raunverulega svipuð skilyrði og í fjáraukalögum — þetta er óskiptur almennur varasjóður til að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg og ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti í lögum um opinber fjármál. Þessi varasjóður skal nema að lágmarki 1% af fjárheimildum fjárlaga, það er lágmarkstala.

Í varasjóðnum núna í ár, árið 2023, eru 34,6 milljarðar og ef við skoðum frumvarp til fjárlaga þá er þegar búið að ráðstafa öllum þessum pening, þessum 34,6 milljörðum, nema tæplega 3,8 milljörðum. Þannig að það er enn svigrúm til að bregðast við óvæntum, óhjákvæmilegum útgjöldum, svo sem vegna jarðhræringa og mögulegra eldsumbrota á Reykjanesi fyrir lok þessa árs ef til þess kæmi. Það er mikilvægt að þessu sé haldið til haga, ekki síst vegna þess að við vorum að samþykkja lög hérna um að verja orkuverið í Svartsengi með varnargarði sem kostar 2,5 milljarð, með óvissu upp á 20%. Og vissulega er mikilvægt að það komi líka fram að Bláa lónið er innan þessa varnargarðs. Í þeim lögum var gert ráð fyrir aukinni skattheimtu, svokölluðu forvarnagjaldi, en það hefði verið hægur leikur að nota þennan almenna varasjóð, eins og segir í frumvarpi til fjáraukalaga sem hér er til umfjöllunar, til að bregðast við jarðhræringum og mögulegum eldsumbrotum á Reykjanesi hvað varðar þessa framkvæmd og gott betur þar sem við getum áætlað svona 2,5–3 milljarða kr. í framkvæmdina, en það eru 3,8 milljarðar þar inni.

Þessi varasjóður er almennur varasjóður. Hann er ekki eingöngu ætlaður til að bregðast við náttúruhamförum eða eldsumbrotum, eins og kemur fram í frumvarpinu. Það kemur fram í greinargerðinni með ákvæðinu í lögum um opinber fjármál um almenna varasjóðinn að þar með talið geti hann líka brugðist við eldsumbrotum og náttúruhamförum, en það er jafnframt fjallað um kjarasamninga og önnur óvænt útgjöld. Þannig að þetta er ekki náttúruhamfarasjóður á nokkurn hátt heldur almennur varasjóður sem er notaður til að bregðast við tímabundnum, ófyrirsjáanlegum og óhjákvæmilegum útgjöldum.

Þessi varasjóður í ár hefur verið notaður m.a. vegna launahækkana, ríkisábyrgð við stuðningslán, umsækjenda um alþjóðlega vernd, leiðtogafundar Evrópuráðsins og riðu í Miðfirði og fleiri atriðum og eldgosum og snjóflóðum fyrir tæplega 200 millj. kr.

Ég tel að þennan varasjóð, það sem eftir er af honum, eigi líka að nota til að koma með eingreiðslu fyrir jólin fyrir aldraða, eins og fyrir öryrkja. Það er alveg klárt mál að staða aldraða, allra tekjulægstu lífeyrisþega landsins, er þannig miðað við vaxtastigið og verðbólguna að við verðum að bregðast við líkt og hefði átt að gera í fyrra. Við gerðum það ekki í fyrra en krafa fólks var að brugðist yrði við hvað þetta varðaði. Þetta eru ekki miklir peningar og við erum að tala hérna fyrst og fremst um fólk sem er eingöngu á lífeyri almannatrygginga sem getur ekki leitað til lífeyrissjóða. Þetta er að stórum hluta konur sem voru heima og sáu um uppeldi barna og voru ekki á vinnumarkaði og greiddu ekki í lífeyrissjóð. Þetta er ekki stór hópur og ég vona innilega að Alþingi Íslendinga sjái sóma sinn í því að sjá til þess að þessi hópur fái eingreiðslu fyrir jólin. Það er bara réttlætismál. Við eigum næga peninga í varasjóðinum og það er nægur peningur í ríkissjóði líka.

Við eigum líka að nota þennan almenna varasjóð til að koma til móts við fólk með fíknisjúkdóma vegna ópíóíða- og fentanyl-neyslu sem eru núna að grassera eins og enginn sé morgundagurinn og það vandamál fer vaxandi. Ég held að það sé mikilvægt að gera það.

Varðandi önnur atriði í þessum fjáraukalögum sem er mikilvægt að fara inn á má nefna hinn gríðarlega vaxtakostnað, vaxtagjöld ríkissjóðs vegna skulda sinna. Það eru 124 milljarðar í ár og það hefur aukist um 3%, þ.e. það hefur aukist um 0,6% af vergri landsframleiðslu og er komið upp í 3% af vergri landsframleiðslu. Þetta er alls ekki nógu gott og er orðið ákveðinn baggi á ríkissjóði. Við verðum að horfa til þess að áætlað er að halli á ríkissjóði í ár verði um 45 milljarðar kr., eða 1,1% af vergri landsframleiðslu. Hallinn er 1,1% af vergri landsframleiðslu en við erum að hins vegar borga 3% af vergri landsframleiðslu í vaxtagjöld. Samt sem áður er þetta ríflega 74 milljörðum kr. betri afkoma en búist var við í áætlun fjárlaga þessa árs og það eru 1,9% af vergri landsframleiðslu, betri afkoma.

Batinn í svokölluðum frumjöfnuði ríkissjóði er meiri en í heildarafkomunni. Það gefur að skilja vegna þess að hvað er frumjöfnuður? Jú, hann er eiginlega útgjöld eða jöfnuður ríkissjóðs áður en tekið er til vaxtagreiðslna. Það er svolítið blekkjandi að nota þennan frumjöfnuð. Hann er áætlaður jákvæður um 42 milljarða í ár, sem er yfir 90 milljarða betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárlögum — 90 milljarða betri afkoma. Við sjáum það líka að það eru auknar tekjur af tekjuskatti lögaðila. Það eru um 29 milljarðar. Tekjur af fjármagnstekjuskatti aukast einnig talsvert, samkvæmt samþykktum fjárlögum um rúmlega 21 milljarð. Tekjur af virðisaukaskatti hækka úr 351 milljarði kr. í 366 milljarða kr., eða um 15 milljarða kr. Hlutfall af vergri landsframleiðslu lækkar þó úr 8,8% upp í 8,71%.

Aðrar tekjur ríkissjóðs, en skattar og tryggingagjöld, eru áætlaðar um 15,3 milljörðum kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Það má m.a. rekja það til vaxtatekna ríkissjóðs.

Heildarskuldir ríkissjóðs eru áætlaðar núna 1.700 millj. kr. í lok ársins en voru áætlaðar 1.560 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið, þ.e. við skuldum mun meira núna í lok árs en við gerðum ráð fyrir. Hækkunin nemur um 146 milljörðum kr. og skýrist m.a. af lántökum vegna kaupa ríkissjóðs í Landsneti. En það breytir því ekki að við erum ekki að fara í rétta átt hvað þetta varðar. Heildarskuldir ríkissjóðs eru áætlaðar í ár um 1.706 milljarðar kr. í árslok en voru áætlaðar 1.560, þannig að skuldir ríkisins eru að aukast og það er ekki góð þróun. Vaxtagjöldin sýna það líka, við skuldum of mikið og það eru of há vaxtagjöld þrátt fyrir að við séum með auknar tekjur. Það gengur að sjálfsögðu ekki, bara alls ekki. En það breytir því ekki að þegar auknar tekjur eru þá eigum við að sinna því sem mest þörf er á, að sinna þeim sem hafa það allra verst í samfélaginu. Það erum við heldur ekki gera. Það er mjög mikilvægt að við komum nú til móts við aldraða varðandi eingreiðslu líkt og við gerum við öryrkja. Við erum ekki að tala um einhverja milljarða þar, ekki á nokkurn einasta hátt.

Ég tel líka að það sé mjög mikilvægt að við komum til móts við SÁÁ sem er að takast á við ópíóíðavandann og fentanyl-vandann og aukinn áfengisvanda. Það er gríðarlega mikilvægt að við komum til móts við SÁÁ, þá beiðni sem þeir hafa lagt fram um fjármagn. Ég tek dæmi og vil benda á það sérstaklega að ríkissjóður, íslenska ríkið, er ekki að reka áfengissjúkrahús. Það eru áhugasamtök úti í bæ sem hafa gert samning við ríkið um að gera það og vinna alveg ótrúlega gott starf sem við ættum að halda meira á lofti.

Ég tel ekki ástæðu að hafa þetta mikið lengra en ég tel að þær breytingartillögur sem Flokkur fólksins mun koma með ættu að fá góðan hljómgrunn hérna inni í þingsal þar sem það eru ekki miklar fjárhæðir hvað varðar aldraða varðandi eingreiðslu fyrir jólin og ekki heldur þegar kemur að fíknivandanum í samfélaginu. Það mun ekki breyta neinu stórkostlegu. Ég bendi á að nú þegar er óráðstafað 3,8 milljörðum kr. Varðandi þær aðgerðir sem ríkið hefur farið í til að bjarga innviðum á Reykjanesskaga vegna eldsumbrota þar þá voru sérstök lög samþykkt, sem eru auknar álögur á borgarana, sem munu greiða það. Það er ekki varasjóður sem mun greiða það.

Ég sé ekki fyrir mér að 3,8 milljarðarnir verði notaðir eingöngu vegna jarðhræringanna og mögulegra eldsumbrota á Reykjanesi hvað það varðar. En það breytir því ekki að okkur ber skylda í þessum sal og ríkisstjórninni að taka vel utan um Grindvíkinga á þeirra raunatímum og ég veit að það eru allir sem einn tilbúnir hér á Alþingi til að koma til móts við það og það er okkar fremsta verkefni næstu daga og vikur, komi til þess að þær sviðsmyndir sem núna eru teiknaðar upp rætist. Við skulum vona að það verði ekki og að Grindvíkingar geti farið aftur til síns heima og við getum farið að snúa okkur að uppbyggingunni á þeim skemmdum sem þar hafa orðið, sem eru gríðarlega miklar, bæði á innviðum og húsnæði.