154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

aðgerðir stjórnvalda til aðstoðar Grindvíkingum.

[15:15]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það sem ríkisstjórnin vill fá út úr því samtali við bankana sem er nú yfirstandandi er að bankarnir komi af meiri krafti inn í það samfélagslega verkefni að styðja við Grindavík og Grindvíkinga. Við þekkjum öll hvað það er sem bankarnir hafa nú þegar lýst yfir að þeir séu tilbúnir að gera en ég held að við séum öll sammála um að þar þurfi að gera meira. Ég heyri ekki annað á hv. þingmanni en að hann sé með í því liði, þ.e. á meðan óvissan er jafn mikil og hún er núna þegar fólk veit ekki hvenær það kemst heim til sín, ef það kemst heim til sín, á meðan fólk veit ekki hversu lengi það þarf mögulega að borga af sínu húsnæði heima í Grindavík meðan það greiðir mögulega húsaleigu annars staðar. Þetta er því sameiginlegt verkefni og ég myndi vilja sjá bankana gefa eftir vaxtagreiðslur og verðbætur, eitthvað í þá áttina. Á sama tíma er ríkisstjórnin síðan að huga að því með hvaða móti hún getur komið inn í almennan húsnæðisstuðning fyrir fólk sem þarf að fara í annað húsnæði og hefur ekki aðgang að því húsnæði sem það á eða leigir heima í Grindavík. Ég sé þetta sem verkefni sem við þurfum að koma að sem flest til að geta stutt dyggilega við bræður okkar og systur í Grindavík.