154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

aðgerðir stjórnvalda til aðstoðar Grindvíkingum.

[15:18]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það liggur alveg ljóst fyrir að núna er starfsfólk Náttúruhamfaratryggingar Íslands að fara um svæðið til að taka út þær skemmdir sem orðið hafa á húsum í Grindavík. Það er fyrsta skrefið til að átta sig á umfangi þess sem þarna hefur átt sér stað. Samkvæmt lögum ber náttúruhamfaratryggingu að bæta ákveðið tjón sem orðið hefur á húsum fólks vegna atburða eins og þeirra sem hér hafa orðið, þannig að það er alveg ljóst að það verður að sjálfsögðu staðið við það sem kemur út úr þeirri skoðun.

Almennt séð vil ég segja að það er óvissa. Við erum í miðri jarðfræðilegri atburðarás sem veldur mikilli óvissu fyrir fólk og það er óvissan sem núna er uppi fyrir Grindvíkinga sem við erum skref fyrir skref í ríkisstjórninni að vinna að. Það kemur fram frumvarp sem ég mæli fyrir hér seinni partinn í dag. Það er verið að vinna í húsnæðismálum (Forseti hringir.) sem snýr að því að tryggja fólki húsnæði, athuga með stuðning og svona tökum við þetta koll af kolli.