154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

Afleiðingar hárra vaxta fyrir heimilin í landinu.

[16:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að rifja það upp að seðlabankastjóri tilkynnti sumarið 2020 að Ísland væri orðið lágvaxtaland. Hann boðaði nýja tíma, sagði að í fyrsta sinn yrði það raunverulegur valkostur fyrir heimilin að skipta yfir í nafnvexti. Fólkið sem trúði honum glímir nú við stóraukna greiðslubyrði vegna húsnæðislána en bankarnir græða og bindiskylda þeirra er ekki aukin, sem þó gæti komið í stað einstaka vaxtahækkana.

Fyrir kosningar 2021 talaði þáverandi fjármálaráðherra líka um lága vexti og lága verðbólgu á Íslandi, sem væri komin til að vera. Of margir trúðu þessari þvælu, leyfi ég mér að segja. Hvað gekk þessum valdamiklu embættismönnum til að láta eins og ekkert samband væri lengur á milli vaxtastigs, gengisþróunar og verðlags? Heimilin bera kostnaðinn og þar eru fyrstu kaupendur stór hópur. Sum þeirra nýttu auk þess séreignarsparnaðinn sinn til að greiða niður höfuðstól lánanna. Nú þegar fólkið hefur ekki efni á mánaðarlegum greiðslum, getur ekki lengur rekið heimili sitt á yfirdrætti með 17% vöxtum, verða þau að skipta yfir í verðtryggð lán til að lækka greiðslubyrðina. Höfuðstóllinn, sem þau nýttu séreignarsparnaðinn sinn til að lækka, hækkar aftur og séreignarsparnaðurinn er farinn.

Á meðan við búum við íslensku krónuna verður vaxtastig hærra hér á landi en í evrulöndunum og almenningur ber kostnaðinn. Aðgerðir til framtíðar eru augljósar en þær eru til skamms tíma einnig. Ríkisstjórnin verður að styðja heimilin með hærri vaxta-, húsnæðis- og barnabótum. Ef ekkert verður að gert fá um 5.000 færri heimili vaxtabætur á næsta ári en nú og skattalækkun til barnafólks skreppur saman að raunvirði. Við það verður ekki unað.