154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

Afleiðingar hárra vaxta fyrir heimilin í landinu.

[16:18]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Ég mun að öllum líkindum endurtaka eitthvað sem kom fram í fyrri ræðu minni en verkefnið er það sama, að ná niður verðbólgu og koma á fyrirsjáanlegra vaxtaumhverfi sem er okkar mikilvægasta verkefni í náinni framtíð. Þetta gerum við auðvitað fyrst og fremst með ábyrgum rekstri og aðhaldi í ríkisfjármálum um leið og við verjum í þessu ástandi þá hópa sem verða fyrir áhrifum verðbólgunnar. Kjarasamningar á vinnumarkaði losna nú um áramótin og þar er allra hagur að vel takist til. Við búum sem betur fer við gott atvinnustig hér á landi og það er því til mikils að vinna að lenda farsælum langtímakjarasamningum sem styðja við það mikilvæga verkefni að ná hér niður verðbólgu og vöxtum, sem er óumdeilt mesta kjarabót heimila og fyrirtækja í landinu. Það er auðvitað þannig, virðulegur forseti, að það eru skiptar skoðanir eins og gengur og gerist um hvaða leiðir í þessu séu heppilegastar og þó að ríkisstjórnin eigi ekki formlega aðkomu að kjarasamningsgerðinni er alveg augljóst að aðilar vinnumarkaðarins muni kalla eftir því að stjórnvöld liðki fyrir gerð kjarasamninga. Þar verður líklegast háværasta krafan um aukið húsnæðisöryggi og að barnafjölskyldur verði sérstaklega varðar. Þá ætla ég koma inn á þá aðgerð sem ég nefndi hér áðan og er nú þegar búið að ráðast í, en ríkisstjórnin hefur komið inn með aðgerðir á húsnæðismarkaði þegar kemur að almennum íbúðum og veitingu hlutdeildarlána til að kaupa hagkvæmt húsnæði. Þessu til viðbótar tel ég skynsamlegt, af því að við erum alltaf að tala um fasteignamarkaðinn, að gera nauðsynlegar lagabreytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða sem geta hjálpað okkur að ná tökum á (Forseti hringir.) og byggja upp traustan og heilbrigðan leigumarkað sem við höfum því miður ekki hér á landi og höfum ekki haft.