154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

tímabundinn stuðningur til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

508. mál
[16:33]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavík. Það er ekki léttvæg ástæða sem veldur því að nauðsynlegt er að taka slíkt frumvarp til meðferðar hér á Alþingi Íslendinga en náttúran hefur enn og aftur minnt á sig á Reykjanesskaga og ljóst er að í þetta sinn er um að ræða náttúruhamfarir af stærðargráðu sem á síðari tímum hefur ekki þekkst hér á landi. Hugur okkar allra er hjá Grindvíkingum sem nú takast á við nýjan veruleika fjarri heimilum sínum og ofan á allt annað geta mörg ekki sinnt vinnu sinni þar sem starfsstöðin er í Grindavík. Við erum stödd í jarðfræðilegri atburðarás sem við vitum ekki hvernig mun enda. Þetta skapar nagandi óvissu fyrir Grindvíkinga sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín og sjá ekki fram á að fara aftur heim alveg í bráð.

Við ráðum ekki við óvissu sem tengist náttúruöflunum en þeirri óvissu sem tengist afkomu fólks, húsnæði, skólagöngu barna og fleiri atriðum getum við og eigum að draga úr og eyða og búa til aukna vissu og von hjá Grindvíkingum. Eitt af því er að draga úr áhyggjum fólks í Grindavík af afkomu sinni. Það er fjölmargt sem hefur áhrif á afkomu fólks; húsnæðislán heima fyrir í Grindavík, leiga á nýju húsnæði, matur og aðrar nauðsynjar frá degi til dags. Það hefur því verið forgangsverkefni hjá ríkisstjórninni að grípa strax til aðgerða er lúta að stuðningi til greiðslu launa vegna náttúruhamfaranna og reyna þannig að draga úr áhyggjum fólks af afkomu sinni.

Markmið þess frumvarps sem ég mæli hér fyrir er að tryggja fólki launagreiðslur upp að ákveðnu hámarki á meðan náttúruhamfarir koma í veg fyrir að það geti sinnt vinnu sinni þar sem starfsstöðin er í Grindavíkurbæ. Markmið frumvarpsins er jafnframt að viðhalda ráðningarsambandi atvinnurekenda og starfsfólks. Við erum enn í atburðarásinni miðri en vonum auðvitað öll að aðstæður fólks skýrist sem mest á næstu vikum og mánuðum. Í ljósi þess er gert ráð fyrir að sá stuðningur sem frumvarpið felur í sér geti komið til á tímabilinu frá 11. nóvember síðastliðnum og til loka febrúarmánaðar á næsta ári. Stjórnvöld munu hér eftir sem hingað til fylgjast náið með framvindu mála og grípa til aðgerða til að styðja við bakið á Grindvíkingum eins lengi og þörf krefur.

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimilt verði að veita tímabundinn stuðning upp að ákveðnu hámarki til greiðslu launa starfsfólks á almennum vinnumarkaði í Grindavíkurbæ en ljóst er að ríkið og sveitarfélagið sjálft munu greiða starfsfólki sínu laun þrátt fyrir að ekki komi til stuðnings frá ríkinu. Skilyrði fyrir því að atvinnurekandi geti óskað eftir stuðningi vegna greiðslu launa starfsfólks er að atvinnurekandinn hafi sannanlega greitt starfsfólki sínu laun og að starfsstöðvar starfsfólksins séu í Grindavíkurbæ þannig að starfsfólkið hafi af þeim sökum ekki geta sinnt vinnu sinni.

Ég bind miklar vonir við að fyrirtækin á svæðinu muni halda áfram að greiða starfsfólki sínu laun og forðist það að beita heimildum til að taka starfsfólk af launaskrá við þessar aðstæður. Að sjálfsögðu vona ég einnig að ekki þurfi að koma til uppsagna. Þrátt fyrir framangreint er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að það geti komið til stuðnings til einstaklinga sem ekki geta sinnt störfum sínum í Grindavíkurbæ og fá af einhverjum ástæðum ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Jafnframt er með frumvarpinu tryggður stuðningur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem eru með starfsstöðvar í Grindavík. Gert er ráð fyrir að stuðningur samkvæmt frumvarpinu geti aldrei numið hærri fjárhæð en 633.000 kr. miðað við heilan almanaksmánuð en það er sama hámarksfjárhæð og greidd er á grundvelli laga um Ábyrgðasjóð launa. Auk þess yrði veittur 11,5% viðbótarstuðningur af greiddri fjárhæð hverju sinni vegna mótframlags í lífeyrissjóð. Þannig getur stuðningurinn að hámarki numið rúmlega 705.000 kr. á mánuði vegna hvers einstaklings. Vinnumálastofnun mun annast framkvæmdina en stofnunin hefur að mínu mati margsannað sig þegar kemur að því að leysa flókin verkefni á stuttum tíma. Ég er þess fullviss að stofnunin muni sjá til þess að framkvæmdin hvað varðar fyrirhugaðan stuðning vegna launa muni ganga hratt og vel fyrir sig. Þá ber þess að geta að stofnunin hefur þegar hafið undirbúning framkvæmdarinnar.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp snýst um að tryggja launagreiðslur til næstu mánaða til þeirra einstaklinga sem nú búa við mikla óvissu vegna þeirra náttúruhamfara sem geisa í Grindavíkurbæ. Á sama tíma og ég hvet fyrirtækin á svæðinu til að leita allra mögulegra leiða til að greiða laun starfsfólks síns svo lengi sem mögulegt er þannig að einstaklingarnir verði fyrir sem minnstu tekjutapi tel ég að ekki verði hjá því komist að setja einhvers konar hömlur á heimild fyrirtækja til að greiða út arð eftir að hafa þegið umræddan stuðning frá stjórnvöldum. Er þannig í frumvarpinu gert ráð fyrir að ef atvinnurekandi sem fengið hefur stuðning til greiðslu launa tekur ákvörðun um úthlutun arðs á tímabilinu mars 2024 til og með febrúar 2025 þá skuli hann endurgreiða Vinnumálastofnun þann stuðning sem hann hefur fengið frá ríkinu áður en til úthlutunar arðs kemur. Að mínu mati er þetta eðlileg krafa sem hér er gert ráð fyrir að gerð verði til þeirra fyrirtækja sem um ræðir og ég tel hana mikilvæga, enda er sá stuðningur sem um ræðir ráðstöfun á almannafé.

Virðulegi forseti. Ljóst er að sú staða sem komin er upp tekur á okkur öll en fyrst og fremst tekur hún á hjá Grindvíkingum. Það er nauðsynlegt að bregðast hratt og örugglega við til að koma til móts við samfélagið í Grindavík og þetta frumvarp er liður í því.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég árétta það að frumvarpið er unnið í samráði við forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti, í samráði við Vinnumálastofnun, ASÍ og Samtök atvinnulífsins. Vil ég þakka öllum þessum aðilum fyrir framlag þeirra og skjót viðbrögð í hvívetna. Ég óska líka eftir góðri samvinnu við hv. þingmenn um skjóta afgreiðslu þessa mikilvæga máls, enda desembermánuður rétt handan við hornið. Við getum ekki haft áhrif á náttúruöflin en við getum samþykkt þetta frumvarp og lagt þannig lóð á vogarskálarnar með því fólki sem stendur nú í auga stormsins.

Að lokum þessari umræðu í dag legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.