154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Öryggis- og varnarmál voru fyrirferðarmikil á þingi Norðurlandaráðs í Ósló í byrjun nóvember. Fjölgun Norðurlanda í NATO var töluvert rædd og ljóst af orðum margra gesta, þar með talið Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra NATO, að þeir vænta mikils af nánara samstarfi Norðurlandanna í varnarmálum.

Öryggis- og varnarmál í Evrópu voru líka ofarlega á baugi þegar ég heimsótti Washington DC á dögunum ásamt hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni. Sendiráð Íslands hafði undirbúið mjög góða dagskrá þar sem við náðum áhugaverðum og mikilvægum samtölum um ýmis alþjóðleg málefni líðandi stundar. Dagskráin hófst með opnum fundi hjá Hudson Institute hugveitunni þar sem Andríj Jermak, helsti ráðgjafi Zelensky Úkraínuforseta, fór yfir málin. Í kjölfarið funduðum við í utanríkisráðuneyti og þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna. Bergdís Erlendsdóttir, sendiherra okkar í Bandaríkjunum, bauð okkur á fund með Jim Townsend, fyrrverandi aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Í samtali við hann fengum við góða innsýn í ýmis mál sem eru ofarlega á baugi í alþjóðapólitík og í öryggis- og varnarmálum. Það er alveg ljóst, og nokkuð sem við höfum ekki farið varhluta af, að áherslan á Norður-Evrópu, öryggis- og varnarmál, hefur því miður náð nýjum hæðum undanfarin tvö ár.

Við áttum fleiri áhugaverðum fundi sem ég næ ekki að fara yfir hér en mig langar að nefna að lokum fund í Pentagon með fulltrúum frá skrifstofu málefna Norður-Evrópu og NATO og skrifstofu norðurslóða og loftslagsmála. Heimsóknin endaði þannig á sömu nótum og voru slegnar á þingi Norðurlandaráðs í Ósló þremur vikum fyrr; með umræðu um mikilvægi norræns varnarsamstarfs og um mikilvægi þess að halda norðurslóðum sem friðar- og lágspennusvæði. Ég er sjálf eftir þessar heimsóknir sannfærðari en nokkru sinni fyrr að áhersla á þessi mál þarf að vera töluvert fyrirferðarmeiri hér á Alþingi Íslands.