154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég get nú bara tekið undir hvert einasta orð sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson sagði á undan mér. Þið ættuð að skammast ykkar sem eigið að taka það til ykkar, hvernig þið eruð að fara með fólk sem býr hér í sárri neyð. Þess vegna ætla ég að ræða hér um komandi fjáraukalög, sem koma til okkar núna á næstu dögum til 2. umræðu, þar sem Flokkur fólksins er með breytingartillögu við fjáraukann einmitt um jólabónus til handa eldra fólki sem hefur engar aðrar tekjur að reiða sig á en greiðslur almannatrygginga. Þetta eru ríflega 2.000 einstaklingar. Upphæðin eru um 138 millj. kr. sem við erum að óska eftir fyrir þennan langfátækasta hóp. Þetta er einmitt eins og hv. þm. Guðmundur Ingi benti svo réttilega á áðan; stærri hlutinn af þessum ríflega 2.000 einstaklingum sem við erum að óska eftir jólabónus fyrir er fyrrverandi öryrkjar, fólk sem hefur farið úr því að fara úr örorkukerfinu yfir í ellilífeyriskerfið og misst þá í rauninni tugi þúsunda í sumum tilvikum af framfærslu sinni. Þetta er náttúrlega alveg stórkostlegt. Ég skil ekki af hverju Guðmundur er alltaf dingla hér um með hækjurnar því að hann er nefnilega kominn á ellilífeyrinn og komin á þann aldur að hann ætti að vera orðinn alveg fullfrískur, ekki satt? Ég er nefnilega að bíða alveg mjög spennt eftir því einmitt að verða 67 ára því að þá hendi ég náttúrlega gleraugunum og get loksins tekið bílpróf, hlýtur að vera.

Þetta er allt mjög öfugsnúið, eins og við vitum. Og það er hér í þessu húsi, á hv. Alþingi, sem við eigum í rauninni að leiðrétta svona rugl. Það er hérna sem við eigum að sýna sóma okkar í því að leiðrétta svona rugl. Ég skora á ríkisstjórnina að leiðrétta þetta rugl og í rauninni líka að koma með þennan jólabónus til handa fátækustu eldri borgurunum núna fyrir jólin.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. þingmenn á að vísa til annarra þingmanna með fullu nafni eða kjördæmisnúmeri.)