154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

húsnæðisstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

509. mál
[15:39]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024–2038 og aðgerðaáætlun fyrir næstu fimm ár, þ.e. 2024–2028.

Með tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu er í fyrsta sinn sett fram heildstæð stefnumótun í húsnæðismálum á landsvísu sem hefur að leiðarljósi að tryggja húsnæðisöryggi í víðtækum skilningi. Þannig verði sköpuð skilyrði að góðu og öruggu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði sem hentar ólíkum þörfum hvers og eins. Verkefnið er stórt og kallar á samvinnu fjölmargra ráðuneyta og stofnana. Með tillögunni verður til skýr langtímastefna um hvernig bregðast eigi við stórauknum íbúafjölda um fyrirsjáanlega framtíð á sama tíma og mikill skortur er á íbúðum. Samhliða þarf húsnæðisstefna að stuðla að félagslegri samheldni og efnahagslegum stöðugleika.

Stefnumótun í húsnæðismálum hefur hingað til ekki verið sett fram á heildstæðan hátt, en þess í stað hafa bæði löggjöf og aðgerðir í málaflokknum fremur mótast af nauðsyn til að bregðast við aðstæðum á húsnæðismarkaði hverju sinni. Á undanförnum árum hafa mörg skref verið stigin til að einfalda stjórnsýslu húsnæðismála, m.a. með stofnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og tilflutningi verkefna til hennar. Einnig með því að sameina húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmál undir sama ráðuneyti ásamt byggða-, samgöngu- og sveitarstjórnarmálum til að tryggja aukna samþættingu þessara málaflokka. Heyra þessir málaflokkar nú allir undir innviðaráðuneytið sem er mikilvægt til að tryggja sameiginlega sýn í áherslum og skilvirkni aðgerða.

Undanfari húsnæðisstefnunnar byggir og horfir m.a. til skýrslna og tillagna sem hafa verið unnar á vettvangi þjóðhagsráðs og ráðuneyta. Má þar meðal annars nefna skýrslu starfshóps um umbætur á húsnæðismarkaði sem Anna Guðmunda Ingvarsdóttir og Gísli Gíslason fóru fyrir árið 2022. Þar voru settar fram 28 tillögur, m.a. um aukna uppbyggingu, endurbættan húsnæðisstuðning, réttindi og húsnæðisöryggi leigjenda og fleira. Þessar tillögur hafa síðan lagt grunn að aðgerðum í stefnumótun og er m.a. horft til þeirra í stuðningi stjórnvalda vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í desember 2022.

Þá var húsnæðisstefnan afrakstur af miklu samráði um allt land, við almenning, sveitarstjórnarstigið, félagasamtök og atvinnulífið. Undanfari stefnunnar var grænbók í húsnæðismálum sem var unnin í innviðaráðuneytinu þar sem greint var frá stöðunni í húsnæðismálum, lykilviðfangsefnum og áherslum við gerð stefnunnar. Grænbókin var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og uppfærð að því samráði loknu.

Í kjölfar grænbókar var unnin svokölluð hvítbók þar sem kynnt voru drög að stefnu með markmiðum, áherslum og mælikvörðum auk tímasettra aðgerða með skilgreindum ábyrgðar- og framkvæmdaraðilum. Hvítbókin var einnig kynnt í samráðsgátt og samráðinu lauk með húsnæðisþingi nú í haust þar sem gafst tækifæri til umræðna og skoðanaskipta um innihald hvítbókarinnar og áherslur stefnunnar.

Í tillögu að þingsályktun um húsnæðisstefnu eru átta lykilviðfangsefni til að mæta áskorunum sem við okkur blasa og leggja grunn að stefnunni. Áhersla er að ná stöðugleika á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mætir þörf. Jafnframt er lögð áhersla á skilvirka stjórnsýslu á sviði húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmála, greinargóðar upplýsingar um húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmál, sérhæfðar lausnir til að mæta áskorunum á landsbyggðinni og markvissan húsnæðisstuðning sem er afmarkaður við þá sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði.

Í tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu eru sett fram eftirfarandi fjögur markmið stjórnvalda í húsnæðismálum:

1. Jafnvægi verði á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mæti þörf og að þróun húsnæðis- og leiguverðs sé stöðug.

2. Skilvirk stjórnsýsla og bætt starfsumhverfi mannvirkjagerðar stuðli að auknum gæðum, öryggi, rekjanleika og hagkvæmni íbúðauppbyggingar í jafnvægi við umhverfið.

3. Landsmenn búi við húsnæðisöryggi og jafnrétti í húsnæðismálum með því að sköpuð verði skilyrði með markvissum húsnæðisstuðningi til að öll hafi aðgengi að öruggu og góðu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði.

4. Framboð íbúða stuðli að virkum vinnumarkaði og styðji við öflug vinnusóknarsvæði um allt land.

Stærsta áskorunin í húsnæðismálum á komandi árum snýr óneitanlega að framboðsmarkmiðinu, þessu fyrsta; að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði. Mikilvægt er að stjórnvöld móti sér skýra stefnu um hvernig bregðast eigi við stóraukinni fólksfjölgun á Íslandi á sama tíma og framboð íbúðarhúsnæðis hefur ekki aukist í takt við íbúafjölgun.

Einnig er skýrt markmið um að auka húsnæðisöryggi tekju- og eignaminni einstaklinga og fjölskyldna, stuðning við fyrstu kaupendur, heimili með þunga framfærslubyrði og þá sem búa við markaðsbrest á húsnæðismarkaði. Í þeim aðgerðum þarf að stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu. Sérstök áhersla verður því að vinna að því að lækka húsnæðisbyrði fyrir tekju- og eignaminni með því að auka framboð af hagkvæmu húsnæði á leigumarkaði. Hér á landi er óhagnaðardrifið leiguhúsnæði aðeins lítill hluti af heildarleigumarkaði, eða um 2–3%.

Hlutdeild almenna íbúðakerfisins samkvæmt stefnunni gæti farið í 6% eftir tíu ár og þannig átt þátt í auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði. Með markvissum aðgerðum til stuðnings tekju- og eignaminna fólks innan almenna íbúðakerfisins er ætlunin að auka framboð af öruggu og viðunandi leiguhúsnæði og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda.

Og við erum við lögð af stað. Nú þegar hefur um 6.500 íbúðum verið úthlutað eða þær fjármagnaðar í uppbyggingarfasa í hinu nýja húsnæðiskerfi sem byggt er á norrænni fyrirmynd. Við erum sem sagt komin af stað í hið norræna húsnæðisfyrirkomulag. Nánar tiltekið þá eru um 5.000 íbúðir fjármagnaðar í almenna íbúðakerfinu með stofnframlagi ríkis og sveitarfélaga og 1.500 íbúðir í hlutdeildarlánakerfinu, en það er úrræði fyrir fyrstu kaupendur undir ákveðnum tekjumörkum.

Að því sögðu er líka rétt að segja að hér er ekki verið að hverfa frá séreignarstefnu. Það er sú stefna sem við höfum haft hér á Íslandi. Langstærstur hluti fólks býr í eigin húsnæði. Hér er hins vegar verið að búa til aðstæður fyrir fjölbreyttari húsnæðismarkað til að mæta fólksfjölgun og auka valkosti fyrir fólk, valkosti um að eiga heimili sem eru grundvallarréttindi íbúa landsins. Forsenda þess er að til staðar séu húsnæðiskostir sem mæta einmitt þörfum mismunandi einstaklinga og fjölskyldna um allt land. Framboðið þarf því að vera fjölbreytt og henta mismunandi hópum.

Verkefnið er stórt og kallar á samhæfða vinnu ráðuneyta, sveitarfélaga, stofnana og annarra hagaðila. Samtal við sveitarfélögin um þessi mál hafa verið sett í forgang, m.a. með rammasamningi ríkis og sveitarfélaga um húsnæðisuppbyggingu og tímasetta aðgerðaáætlun. Nú hafa tvö sveitarfélög skrifað undir slíkan samning og fleiri munu gera það. Sveitarfélögin skapa sér framtíðarsýn í uppbyggingu húsnæðis, bæði hvað varðar umfang nýrrar húsnæðisuppbyggingar, en einnig varðandi tegund og samsetningu húsnæðis.

Ég sagði áðan að við værum lögð af stað. Til marks um það þá eru níu frumvörp sem eru hluti aðgerðanna í húsnæðisstefnunni í tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu ýmist í vinnslu í ráðuneytinu eða hafa verið lögð fram hér á Alþingi nú þegar. Frumvörpin styðja við þau markmið sem stefnan byggir á. Samtals eru 43 aðgerðir sem ætlað er að ná fram markmiðum húsnæðisstefnunnar. Níu þeirra falla undir markmið um jafnvægi á húsnæðismarkaði, þ.e. framboðshlutann, 14 undir markmið um að skilvirkari stjórnsýslu og gæði íbúða í jafnvægi við umhverfið, aðrar 14 undir markmið um húsnæðisöryggi og jafnrétti landsmanna í húsnæðismálum og síðan 6 undir markmið um að framboð íbúða stuðli að virkum vinnumarkaði um land allt.

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í upphafsorðum mínum þá markar þessi tillaga að þingsályktun um húsnæðisstefnu tímamót sem fyrsta heildstæða stefnan í húsnæðismálum á Íslandi af hálfu hins opinbera. Við höfum búið við það allt of lengi, í áratugi og kannski ekki síst eftir bankahrunið, að húsnæðismarkaðurinn hefur sveiflast gríðarlega og haft veruleg áhrif á verðbólgu með tilheyrandi vaxtahækkunum sem koma niður á fjölskyldum og fyrirtækjum. Með þessari umfangsmiklu stefnu er eitt meginmarkmiðið að skapa til lengri tíma jafnvægi á húsnæðismarkaði sem gagnast ekki síst fyrstu kaupendum og þeim sem eru tekju- og eignaminni. Húsnæðisstefnan hefur því ekki einungis áhrif á lífsgæði fólks, ráðstöfunartekjur og húsnæðisöryggi; hún hefur áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni þingsályktunartillögunnar og legg til að henni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umræðu.