154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

framlagning stjórnarmála.

[10:33]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við verðum að ræða fílinn í herberginu, Alþingi er lamað. Verðbólga gengur ekkert niður, vextir haldast ógnarháir, flóknir kjarasamningar eru fram undan en það er lítið, nánast ekkert í dagskrá þingsins sem speglar stöðuna. Hvers vegna er ég að nefna þetta? Ríkisstjórnin er svo sundruð í dag að hingað berast einfaldlega engin frumvörp frá ráðherrum. Deyja málin öll á ríkisstjórnarfundum? Alþingi hefur afgreitt tvö stjórnarfrumvörp í allt haust, annað þeirra varðaði varnargarð og skatta á almenning vegna ástandsins í Grindavík og kom óvænt hér á dagskrá, hitt málið varðaði breytingar á lögum um vaktstöð siglinga. Ágætismál alveg hreint, en var vaktstöð siglinga erindið sem stjórnin var að leita að í haust? Fjöldi frumvarpa frá ríkisstjórninni sem var boðaður fyrir haustið var 109 en í lok nóvember eru 39 frumvörp komin til þingsins. Ríkisstjórnin er orðin óstarfhæf vegna sundrungar. Alþingi er sem lamað fyrir vikið og þetta þarf að segja upphátt.