154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

framlagning stjórnarmála.

[10:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Ég veit að virðulegur forseti er bróðir okkar í þjáningunni. Forseti vill ekki vera að stýra störfum þings þegar ríkisstjórnin er jafn verklaus og léleg og raun ber vitni. Auðvitað vill forseti Alþingis stýra hér dálítið svona dýnamískum og líflegum vinnustað þar sem er nóg að gera og við erum að breyta samfélaginu til hins betra. Ég veit þetta vegna þess að við höfum rætt þetta ítrekað í forsætisnefnd. 6. nóvember bókaði ég einmitt sem fulltrúi í forsætisnefnd áhyggjur af því að á þeim tímapunkti var bara kominn fram þriðjungur þeirra mála sem áttu að koma frá ríkisstjórninni í september, október. Bara þriðjungur. Ekki held ég að forseti Alþingis hafi verið neitt hrifnari af því en ég. Það sem við þurfum að taka fram — það á ekki að þurfa að taka það fram en við þurfum að gera það svo það sé alveg skýrt — er að stjórnarliðum hlýtur að vera ljóst að þessi töf þeirra á því að leggja fram sín mál (Forseti hringir.) getur auðvitað og mun setja í uppnám alla afgreiðslu mála fyrir jól. En það er bara á þeirra ábyrgð.