154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

framlagning stjórnarmál.

[10:42]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langaði aðeins að koma hingað og taka undir það sem hæstv. innviðaráðherra segir, sennilega eru of mörg mál á þingmálaskrá. En þetta gerist aftur og aftur þótt staðan sé klárlega töluvert verri en við höfum séð áður og þetta er ástand sem hefur eiginlega stefnt í í stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar. En ein birtingarmyndin er sú að það eru mörg mál mjög hroðvirknislega unnin. Með því að fækka málum og vera með ákveðið raunsæi í gangi þegar þingmálaskráin er lögð fram þá er ég sannfærð um að það myndi bæta ekki bara verklagið hér á þingi heldur gæði mála. Við sitjum núna t.d. í atvinnuveganefnd og erum að vinna með stjórnarmál og samhliða annað mál sem nefndin þarf að flytja af því að stjórnarmálið er svo lélegt. Það þurfti of stórar breytingartillögur til þannig að það var talið ótækt. Þetta er bara staðan sem við stöndum frammi fyrir. Þetta gengur náttúrlega ekki mikið lengur. En ég ætla að benda hæstv. ráðherra á að það er ekki þingið sem ræður þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Það er ríkisstjórnin. Það getur hún þó ráðið við.