154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

framlagning stjórnarmála.

[10:52]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Við erum að glíma við jarðhræringar sem eru að setja þúsundir Íslendinga á flótta innan lands. Verðbólga og vextir eru í hæstu hæðum og húsnæðismarkaðurinn annar ekki eftirspurn. Eins og ég sagði hérna áðan þá hef ég ítrekað verið spurð að því undanfarið hvort það sé ekki brjálað að gera hjá okkur hérna á þinginu. Ég þarf því miður að segja við fólk: Nei, það er bara ekkert að gera. Það er ekkert að gerast vegna þess að ríkisstjórnin er ekki að koma hér inn með þau mál sem hún hefur lofað. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir talaði um að það væri rétt að fækka málum, m.a. þar sem það væri stundum erfitt fyrir ráðherra að koma málum í gegn vegna þess að þau væru ekki sammála. (BjG: Ekki leggja mér orð í mun, það sagði ég ekki.) (Forseti hringir.) Ég óttast að við munum horfa á sömu stöðu núna fyrir jól, fyrir þinglok — ég biðst afsökunar ef ég hef misskilið þingmanninn — og við sáum núna í vor sem var sú að málin komu seint inn, þau komu illa unnin. Það var ekki sátt innan ríkisstjórnarinnar um þau og þingið núna í vor endaði með því að nánast öllum þeim málum sem einhverju máli skiptu fyrir einhvern var bara slaufað, (Forseti hringir.) það var bara hætt við allt saman svo við gætum komist í sumarfrí.