154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

framlagning stjórnarmála.

[10:59]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Ég verð að taka undir með þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Það er mjög erfitt að fá mál fyrir tekin í nefndum sem koma frá þingmönnum. Í fyrra átti ég, ég man ekki hvort það voru tíu eða tólf mál í efnahags- og viðskiptanefnd og eitt þeirra fékkst rætt í 20 mínútur. Þar var um að ræða frystingu á verðtryggingu á lánum og leigu í eitt ár fyrir heimilin. Það hefði aldeilis getað skipt máli, ég tala nú ekki um ef það hefði verið tekið fyrir fyrr, þ.e. fyrst þegar ég lagði það fram, á fyrsta þingvetrinum. Málið er að það er ekki verið að gera neitt sem skiptir máli einhvern veginn fyrir heimilin í landinu. Þau eru að brenna upp og það er ekkert verið að gera í því. Við látum eins og það sé ekkert í gangi úti í þjóðfélaginu, að heimilin séu bara í góðu lagi. Þau eru það ekki og það eru ekki bara sértækir hópar sem eru í vandræðum, nú er millistéttin líka lent í verulegum vandræðum og við látum eins og það sé ekkert í gangi, eins og það sé bara allt í himnalagi. Ríkisstjórnin er ekkert að gera fyrir heimilin í landinu.