154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

húsnæðisvandi Grindvíkinga.

[11:13]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Nú vildi ég að ég gæti skipt vegna þess að ég hef sjaldan heyrt jafn fá svör við fyrirspurn og ég heyrði hérna rétt í þessu en ég er líka með mikilvæga spurningu gagnvart innviðaráðherra. Á síðustu þremur árum hafa jarðhræringar í kringum Grindavík valdið því að reglulega hafa verið haldnir íbúafundir um ástandið. Á þeim fundum voru mögulegir fólksflutningar Grindvíkinga ræddir þótt viðbragðsaðilar hafi ekki spáð til um að til þess myndi koma, en það sem Heimaeyjargosið kenndi okkur var að á þessu landi jarðhræringa þýðir ekki að vera bara með áætlanir sem miða við bestu sviðsmyndina heldur verðum við líka að gera ráð fyrir þeirri svörtustu. Spretthópur á vegum hæstv. ráðherra er að sögn að störfum við að finna lausnir varðandi húsnæðisvanda Grindvíkinga, en margir gista í tímabundnu húsnæði eða eru inni á vinum og ættingjum, bæði sé verið að skoða íbúðir í byggingu og þær sem eru þegar á fasteignamarkaði. Ráðherra sagði í viðtali um daginn, með leyfi forseta:

„Við höfum verið að skoða það hvort við getum beitt almenna íbúðakerfinu okkar. Hvort sem eru stofnframlög eða hlutdeildarlán.“

Þá kom einnig fram að það sé verið að skoða innflutning á einingahúsum. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: Hvenær áætlar þessi spretthópur verklok? En til skamms tíma og í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra um skammtímaúrræði, vegna þess að í Covid myndaðist almannavarnaástand og þá greiddi ríkið fyrir hótelgistingu fólks. Núna er almannavarnaástand í Grindavík, fólki gert að yfirgefa heimili sín, en munurinn á þessari aðgerð og Covid-aðgerðum er að nú á fólk bara að redda sér. Kemur til greina af hálfu ríkisstjórnarinnar að leigja hótel fyrir fólk þangað til langtímalausn er fundin?