154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

Staða Landhelgisgæslunnar.

[12:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda aftur fyrir frumkvæðið að þessari umræðu hér í dag og ég er líka þakklát fyrir að ég skynja mjög mikinn velvilja hér í þingsal gagnvart Landhelgisgæslunni og vilja þingmanna þvert á flokka til að efla og styðja við starfsemi Gæslunnar. Eins og fram hefur komið í dag er fjárhagsstaða Landhelgisgæslunnar þung og ég hef sett það sem eitt af mínum áherslumálum í embætti dómsmálaráðherra að standa vörð um Landhelgisgæsluna og tryggja henni fullnægjandi rekstrargrundvöll. Það verkefni er viðvarandi og hef ég unnið að því að finna leiðir til að styrkja stofnunina á komandi árum. Þá verður það enn fremur áframhaldandi verkefni að vinna að heildarstefnumótun fyrir stofnunina í samráði við fjármálaráðherra og Landhelgisgæsluna sjálfa þannig að við getum lagt línur til framtíðar um rekstur stofnunarinnar í fjármálaáætlun.

Ég vil standa vörð um Landhelgisgæsluna. Hún hefur sannað gildi sitt á síðustu árum þegar við sem samfélag höfum tekist á við óveður, snjóflóð, aurskriður og ekki síst það almannavarnaástand sem Suðurnesjamenn hafa búið við sleitulaust síðustu þrjú ár. Í þessum áskorunum hefur Landhelgisgæslan gegnt lykilhlutverki í björgun á landi og sjó og sýnt fumlaus viðbrögð þegar kemur að því að tryggja öryggi í landi elds og ísa. Þjónusta Gæslunnar verður ekki skert á minni vakt.

Ég vil bæta því við, þar sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefndi áðan og talaði um 100 milljóna kostnað við að þyrlur voru settar tvær helgar út á land í sumar, að þær kostuðu ekki meira eða ollu ekki meiri viðbótarkostnaði fyrir Landhelgisgæsluna en sem fólst í mat og gistingu fyrir áhöfn. Því skal haldið hér til haga að Landhelgisgæslan gætir sparsemi og ráðdeildar í sínum störfum.