154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.

402. mál
[12:53]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég bendi á að eini hópurinn sem nýtur engrar niðurgreiðslu eru ungmenni á milli 16 og 18 ára, sem eru á forræði ríkisins. Ég held að það sé nú býsna bratt ef gera á lítið úr næringarríkri og góðri máltíð fyrir einmitt þennan aldurshóp sem er nú farinn að fikta við alls konar hluti og lætur kannski síður stjórnast af því sem foreldrar leiðbeina þeim um, ef ég má alla vega taka dæmi af sjálfum mér á þessum aldri. Fyrsti flutningsmaður nefnir einmitt sérstaklega í sinni ágætu ræðu ungmenni. Hv. þingmaður nefnir sérstaklega að við eigum að feta í fótspor Finna og í þessari ágætu yfirferð á fyrirkomulaginu í Finnlandi stendur einmitt: „Í Finnlandi fá allir nemendur frá leikskólum og upp í framhaldsskóla næringarríka máltíð á hverjum degi, sér að kostnaðarlausu.“

Ég skil því eiginlega ekki að á sama tíma og hv. þingmaður talar um að það þurfi að taka vel í þetta og að þetta sé alveg skoðunarvert þá er eins og hún sé að bakka aðeins, vegna þess að hún áttar sig á því að eini aðilinn sem er ekki að sinna þessu mikilvæga verkefni er einmitt ríkið. Það væri miklu auðveldara fyrir okkur hér inni að taka á því máli vegna þess að það getur verið flókið að útfæra með hvaða hætti við bætum sveitarfélögunum fjárhagsmöguleika til þess að koma á fyllilega gjaldfrjálsum máltíðum í grunnskólum. En við getum a.m.k. strax hér ákveðið að veita börnum á aldrinum 16–18 ára niðurgreiðslu (Forseti hringir.) til samræmis við það sem tíðkast hjá börnum sem eru yngri.