154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

aðgerðaáætlun til að efla Sjúkrahúsið á Akureyri.

83. mál
[15:30]
Horfa

Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil þakka flutningsmanni, hv. þm. Ingibjörgu Isaksen, fyrir þessa góðu þingsályktunartillögu. Ég verð að viðurkenna að því miður fór þessi tillaga fram hjá mér og það verður mitt fyrsta verk að skrá mig á hana á enda gott og mikilvægt málefni hér á ferð. Ég ætla ekki að fara yfir allt sem þingmenn Norðausturkjördæmis hafi verið að fara vel yfir, enda búa þau í návígi við Sjúkrahúsið á Akureyri og þekkja greinilega starfsemina mjög vel. Það hefur verið mikil áhersla núna undanfarið, sem ég fagna, á að efla heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og þegar maður horfir á það í gegnum tíðina þá hefur það svolítið setið á hakanum að efla heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Einn liður í því er að efla Sjúkrahúsið á Akureyri þannig að við þurfum ekki að vera að senda allt of marga suður á Landspítalann sem gætu fengið þjónustu eins og á Sjúkrahúsinu á Akureyri eða annars staðar á landsbyggðinni ef það er ekki sérhæfð þjónusta.

En þetta snýr líka að tækifærunum eins og voru í Covid og með tæknivæðingunni, við höfum tækifæri til að efla heilbrigðisþjónustuna enn frekar með tæknivæðingu, við getum sinnt viðtölum, greint frekar og gert hin ýmsu verkefni á landsbyggðinni sem við höfum ekki getað gert hingað til og alltaf hefur þurft að senda fólk suður. Eins er með venjuleg viðtöl við lækna, það er enn þá þannig að við erum allt of oft að senda fólk í smáviðtal til læknis; þú horfir í augun á honum og ferð svo til baka. Þetta er bara hluti af þessari þróun og leiðir til mun betri þjónustu og í rauninni á hagkvæmari hátt. Ég vil líka bara fagna þessum starfshóp, það hafa margir starfshópar verið settir í gang núna til þess að greina almenna heilbrigðisþjónustu og bráðaþjónustu á landsbyggðinni til að bæta verklag og greina mönnun og þann tækjakost sem þarf til. Hér erum við auðvitað að tala um Sjúkrahúsið á Akureyri og af því að það er búið að tala svo ítarlega um það hér, sem er bara frábær yfirferð, þá leyfi ég mér að fara aðeins út fyrir það og í hvar tækifærin eru í heilbrigðisþjónustunni. Sjúkrahúsið á Akureyri er skilgreint sem varasjúkrahús fyrir Landspítalann. Mér fannst eins og ég hefði ekki heyrt það hér áðan, en bara þessi staðreynd, hvað þýðir þetta? Við þurfum að efla sjúkrahúsið enn frekar ef það á að vera í stakk búið að geta sinnt skyldu sinni sem varasjúkrahús. Ef sjúkrahúsið á að geta sinnt þeirri þjónustu sem fer fram á Landspítalanum þá er bara ýmislegt sem þarf að fara að gera mun betur og efla.

Þá komum við náttúrlega að þessum starfshópi og þessari þingsályktunartillögu sem er gríðarlega mikilvæg og það er örugglega alveg pottþétt mál að það verði lykilfólk frá Sjúkrahúsinu á Akureyri í þessum starfshópi, það er gríðarlega mikilvægt, samtalið og að þau séu við borðið sem þekkja stofnunina. Ég ræddi einmitt um daginn við framkvæmdastjórnina af því að ég missti af þeim í kjördæmavikunni og þau vantar bara betra samtal, það er ekki spurning.

Ef maður fer aðeins út í aðra sálma þá sinna þau náttúrlega gríðarlega mikilvægu hlutverki varðandi sjúkraflugið, sem við höfum mikið talað um að undanförnu. Hér var komið inn á það áðan að sjúkraflugvél þurfti frá að hverfa í gær sem er gríðarlega alvarlegt. Það skiptir landsbyggðina gríðarlegu máli að það sé öflugt sjúkraflug og við getum lent hér en af því að það er náttúrlega ein flugbraut farin í rauninni þá höfum við ekki tækifæri til að lenda í öllum veðrum hér. En með sjúkraflugið þá langaði mig að nefna það aðeins að það hefur komið í fréttum og Björn Gunnarsson, yfirlæknir á Sjúkrahúsinu á Akureyri, hefur bent á annmarka á sjúkrafluginu. Ég hef lagt fram fyrirspurnir um sjúkraflugið og með nýju útboði sem tekur gildi um áramótin þá er sjúkraflugið í rauninni ekki tryggt. Ég vil bara endilega að það séu stigin skref og við séum upplýst um það hvort það sé í rauninni rétt og ef það er rétt hvort það sé ekki verið að bregðast við því. En það er þannig að aðalvélin á að vera tiltæk alla daga vikunnar en varavélin bara þrjá daga vikunnar og ég hef miklar áhyggjur af þessu og vona að bæði með fyrirspurnum mínum og ræðu minni hér í dag get ég vakið athygli á þessu og vona að við fáum svör sem fyrst varðandi það. Björn Gunnarsson yfirlæknir og framkvæmdastjórn vilja meina að það hefði mátt komast hjá þessu með því að vera í góðu samtali. Það kom fram í frétt að lítið samtal hefði verið á milli Sjúkratrygginga Íslands og framkvæmdastjórnar Sjúkrahússins á Akureyri þannig að það verður bara að vera afar gott samtal við framkvæmdastjórn sjúkrahússins, hvort sem það er um þessa uppbyggingu sem við erum að tala um hér eða t.d. þróun sjúkraflugs og að við gerum engin mistök eins og var greinilega þar.

Ég ætla svo sem ekki að fara yfir meira tengt þessari starfsemi og tækifærum, það er búið að fara vel yfir það. En ég fagna þessari þingsályktunartillögu og það verður mitt fyrsta verk að skrá mig á hana.