154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

uppbygging Suðurfjarðavegar.

82. mál
[16:03]
Horfa

Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):

Frú forseti. Hér erum við með þingsályktunartillögu um að flýta uppbyggingu Suðurfjarðavegar, flýta hönnun og útboði á þeirri uppbyggingu og að hún fari fram á yfirstandandi kjörtímabili. Ég er meðflutningsmaður á þessari tillögu og hún er gríðarlega mikilvæg. Eins og hefur komið fram hér í ræðu eru gríðarlegir þungaflutningar sem fara þar fram, tengt álframleiðslu, það er öflugur sjávarútvegur og laxeldi. Þetta eru mjög stórar og verðmætar atvinnugreinar, útflutningsgreinar, og þeim fylgja gríðarlega miklir þungaflutningar. Það skiptir gríðarlegu máli hvernig vegakerfið er í kringum þess konar atvinnusköpun. Það verður að vera öruggt að keyra þessa leið, það er náttúrlega önnur umferð sem fer líka um þessa leið og það er bæði ferðaþjónusta, atvinnu- og þjónustusókn, börn á leið í skóla og fleira, þannig að þetta verður að laga. En það hafa afar litlir fjármunir skilað sér í vegbætur á Austurlandi. Það hefur líka verið komið inn á það svo skemmtilega í ræðu áðan að það er farið að vitna í efnahagsgreiningu Austurlands og það er akkúrat það sem við gerðum á Austurlandi til þess að koma umræðunni á það stig að sýna hvað Austurland er að skapa. Þessar útflutningsgreinar sem ég var að nefna áðan skapa um fjórðung vöruútflutningstekna hér á landi og íbúar Austurlands eru undir 3%. Við höfum einmitt talað um að í uppbyggingu samgönguinnviða er þetta bara brotabrot sem við erum að fara fram á og hvað þá í þessum mikilvægu vegbótum sem Suðurfjarðavegur er og við tölum hér fyrir. Mig langar líka, fyrst ég er farin að tala um efnahagsgreininguna hérna, að ræða að við erum einnig með svæðisskipulag og þar forgangsröðum við líka, samróma, hvert við stefnum. Uppbygging Suðurfjarðavegar er þar inni á skrám þannig að það er vilji okkar á Austurlandi að uppbygging Suðurfjarðavegar fari fram og henni verði flýtt. Það er algerlega tímabært og þetta eru ekki miklir fjármunir í samhengi við þá verðmætasköpun sem fer fram og allar samgöngubætur ýta undir enn frekari verðmætasköpun. Ég er bara mjög ánægð með þessa þingsályktunartillögu og er meðflutningsmaður og vona að hún fái meðbyr í umhverfis- og samgöngunefnd og að þessum framkvæmdum verði flýtt.